Draugasaga

Fyrir mörgum árum sat ég í bíl úti við Garðskagavita. Nýbúinn að fá bílprófið og fór því allra minna leiða á bílnum hvort sem þess þurfti eða ekki. Að þessu sinni sat ég og át hamborgara kl. 2 að nóttu og naut þess að horfa út í myrkrið sem huldi hafið handan við varnargarðinn. Ég hafði heyrt sögur um draugagang við Garðskagavita en hafði ekki áhyggjur af draugum frekar en tröllum og drekum. Eins og til að storka örlögunum slökkti ég ljósin á bílnum og leyfði myrkrinu að umlykja bílinn og sat þar inni í daufri skímu frá ljósunum á mælaborðinu. Mér leið vel, frjáls eins og fuglinn með nýja bílprófið, og hallaði sætinu aftur og setti fæturna upp.

Ég hafði ekki setið lengi svona þegar ég heyrði, og fann, hvernig bankað var í bílstjórahurðina. Bank… bank… bank… þrjú högg heyrðust áður og hættu um leið og ég rauk upp úr sætinu og kveikti ljósin á bílnum. Ég þorði ekki að líta út um gluggann og bakkaði bílnum frekar til að sjá hvað þetta gæti verið.

Ekkert.

Það var ekkert að sjá. Enginn var þarna nema ég, hafið og myrkrið. Það hlaut eitthvað að hafa fokið á dyrnar. Það var eina mögulega skýringin. Ég neitaði að láta undan órökréttum ótta við eitthvað yfirnáttúrulegt svo ég ók bílnum aftur á sinn stað og hélt áfram að maula borgarann minn. Brátt náði ég aftur að slaka á og hallaði mér aftur með góða tónlist í útvarpinu. Ég slökkti ekki ljósin til öryggis. Ég var ekki fyrr búinn að koma mér aftur fyrir en það heyrðist afur, og ég fann það jafn greinilega og áður. Bank… bank… bank…

Þetta gat ég ekki skrifað á sjávarrokið. Ég rauk upp með andfælum og skellti bílnum í bakkgír og spólaði heilan hring á planinu til að sjá hvað eða hver væri að fela sig í myrkrinu og hrekkja mig með svona óþverralegum hætti. Ég sá ekkert.

„ÞAÐ HANGIR Á HURÐINNI!“ gargaði ég innra með mér og gaf allt í botn til að reyna að hrista af mér þessa óværu. Ég keyrði í loftköstum aftur inn í Garð og þorði ekki að líta í baksýnisspeglana fyrr en ég var kominn inn í bæinn og örugga birtuna af ljósastaurunum.

Þá sá ég það. Þegar ég hallaði mér aftur og setti fæturna upp hafði ég lagt annað hnéð að hnappinum sem stýrði hliðarspeglunum á bílnum. Spegillinn bílstjóramegin færðist þar til hann komst ekki lengra og byrjaði þá að hökta.

Þá heyrðist bank… bank… bank…