Flutningur til Lundar – skriffinnskan

Nú nálgast flutningurinn til Svíþjóðar og þá er tekur við svolítil skriffinnska. Í þessari færslu fer ég yfir fyrstu skrefin og geri ráð fyrir að þú sért að flytja hingað í eitt ár eða meira. Ef þú hyggst stoppa styttra en það áttu t.d. ekki að skrá þig inn í landið.

Flutningur á lögheimili

Ef þú ert íslenskur ríkisborgari geturðu skráð lögheimili þitt í landinu án þess að þurfa að sækja fyrst um landvistarleyfi. Þegar þú kemur til Lundar ætti eitt af fyrstu verkum þínum að fara í Skatteverket til að skrá flutning á lögheimili. Það sem þú þarft að hafa með þér er:

  • Vegabréfið (ökuskírteini nægir ekki)
  • Hjúskaparstöðuvottorð (C-116). Ef þú ert í hjónabandi þegar þú flytur skaltu í staðinn taka með þér hjónavígsluvottorð (C-113). Hvort tveggja pantarðu hjá Þjóðskrá.
  • Ef þú hefur börn meðferðis tekurðu með þér fæðingarvottorð (C-110) fyrir hvert og eitt. Þetta pantarðu hjá Þjóðskrá. Athugaðu að ef þið eruð ógift við komuna til Svíþjóðar skráist forræði eingöngu á móðurina. Faðirinn þarf að sækja sérstaklega um forræðið.
  • Til að skrá þig í sænska tryggingakerfið hefurðu samband við Försäkringskassan og það er auðsótt í Lundi því þau deila móttöku með Skatteverket. Þegar ég flutti á sínum tíma þurftum við að framvísa eyðublaði E-104 til staðfestingar á að við værum tryggð á Íslandi. Ég held að rútínan sé breytt núna en ég þekki hana ekki nógu nákvæmlega til að segja frá henni.

Skatteverket er til húsa á Stora Södergatan 45 í Lundi og það er mikilvægt að þið mætið öll saman ef þú ert að flytja með fjölskyldunni. Að lokinni heimsókn verður ykkur úthlutað kennitölum og það tekur 6-8 vikur samkvæmt Skatteverket. Þó hef ég heyrt af styttri afhendingartíma. Til að flýta fyrir ferlinu mæli ég með að þú smellir hér og skráir upplýsingar um þig.

Smelltu hér til að lesa meira um ferlið hjá Skatteverket. 

ID-kort

Þegar þú hefur fengið kennitöluna geturðu sótt um ID-kort. Kortið geturðu notað til að auðkenna þig t.d. þegar þú sækir póst eða ferð til læknis en þú getur ekki notað það til að staðfesta ríkisfang, t.d. við ferðir yfir Eyrarsundið.Allir í fjölskyldunni sem hafa náð 13 ára aldri geta fengið ID-kort og ferlið er eftirfarandi:

  1. Áður en þú sækir um kortið greiðiru 400 króna bókunargjald. Smelltu hér til að fá upplýsingar um reikningsnúmer. Settu sænska kennitölu þess sem þú greiðir fyrir sem skýringu.
  2. Bókaðu tíma hjá Skatteverket. Það er ekki hægt að sækja um ID-kort í Lundi svo þú þarft að bóka tíma hjá Skatteverket í Malmö (eða öðrum stað sem hentar þér til að bæði sækja um og sækja kortið þegar það er tilbúið).
  3. Mættu á tilsettum tíma og hafðu með þér vegabréf til að auðkenna þig og staðfestingu á að þú hafir greitt bókunargjaldið.
  4. Um tveim vikum síðar færðu tilkynningu um að kortið sé tilbúið til afhendingar.

Smelltu hér til að lesa meira um ID-kort.

Bankareikningur

Með ID-kort og kennitölu í hönd geturðu stofnað bankareikning. Í Lundi eru til dæmis SEB, Sparbanken Skåne, Nordea og Handelsbanken. Allir geta eflaust sagt þér sínar ástæður fyrir því að þeirra banki er bestur en skynsamlegast er að kynna sér þá alla og taka ákvörðun sem hentar þér.

Seinna fjalla ég um fleiri skemmtileg skriffinnskuævintýri, atvinnuleit og sitthvað fleira en hér læt ég staðar numið í bili.

Deildu þessu:

Skyldar færslur

Tveir menn hlaðnir bjór á þilfari skips

Borgar sig Bordershop?

Rétt rúma 230 kílómetra héðan (með bíl og ferju) er Puttgarden Border Shop í Þýskalandi. Þangað streyma ótal Svíar ár