Safn Ólafs A. Þorsteinssonar

Ólafur A. Þorsteinsson fæddist í Keflavík 5. ágúst 1914. Hann lést 18. febrúar árið 1988 þegar ég var 7 ára gamall. Hann var afi minn en sökum þess hve ungur ég var þegar hann lést eru minningar mínar um hann þokukenndar. Ég man eftir þægilegri nærveru hans og allri þeirri elsku sem afi getur veitt litlum strák, en ég lærði ekki um líf og verk hans fyrr en löngu eftir andlát hans.

Ólafur var afskaplega virkur í félagsmálum í Keflavík. Hann var í stjórn Ungmennafélagsins í mörg ár og vann með þeim mikla sjálfboðavinnu þegar félagið hafði forystu um byggingu Sundlaugar Keflavíkur. Hann sat í hreppsnefnd og átti sæti í fyrstu bæjarstjórn Keflavíkur. Hann tók að sér stjórn Sérleyfisbifreiða Keflavíkur þegar illa leit út í rekstri félagsins og skilaði því af sér nokkrum árum seinna í miklum blóma. Þegar Olíusamlag Keflavíkur og nágrennis var stofnað árið 1931 var Ólafur fyrsti og eini starfsmaður þess og þar vann hann í 49 ár, allt til hinsta dags. Hann var auk þess einn af stofnendum Lionsklúbbs Keflavíkur og Sálarrannsóknarfélagsins.

Aðaláhugamál Ólafs var Byggðasafn Keflavíkur sem hann átti stærstan þátt í að var sett á laggirnar. Seinni árin helgaði hann því flestar tómstundir sínar og kom upp miklu ljósmyndasafni sem í eru mörg þúsund myndir, en hann var sjálfur iðinn við að mynda fólk og staði í bæjarfélaginu. Hann gerði einnig myndbönd og hljóðupptökur þar sem hann tók viðtöl við eldri borgara um lífið fyrr á árum. Safn Ólafs er óhemjuverðmæt heimild um sögu Keflavíkur.

Ólafur var kvæntur Hallberu Ólafsdóttur, en hún lést 1. mars 2011.

Í viðleitni minni til að kynnast afa mínum betur mun ég koma hér upp safni af efni hans sem verður aðgengilegt almenningi svo fleiri geti notið verkanna.

Safnið er birt undir Creative Commons leyfi
(CC-BY-NC-ND 4.0) sem gefur þér leyfi til að nota efnið sem hér er að finna svo lengi sem það er ekki í ágóðaskyni, þú notar það eins og það kemur fyrir hér og getur að sjálfsögðu heimilda.