Þessi upptaka er frá því um 1977. Hún er tekin upp í tveim hlutum á heimili Halldórs Þorsteinssonar í Garði og fyrri hlutann birti ég hér í dag. Því miður vantar upphaf upptökunnar og nokkuð er um skruðninga í upphafi meðan einhver á við hljóðnemann svo það gæti verið að upptökutækið hafi ekki komist í gang fyrr en liðið var á samtalið. Svo er mögulegt að önnur upptaka hafi eytt hluta af þessari. Hver svo sem ástæðan er, þá er stærstur hluti upptökunnar í góðu lagi og því getum við í dag hlustað á Halldór Þorsteinsson frá Vörum ræða lífið og tilveruna við Ragnar Guðlaugsson og Ólaf A. Þorsteinsson.
Hver var Halldór frá Vörum?
Í greinasafni sínu í Faxa, Minningar frá Keflavík, ritaði Marta Valgerður Jónsdóttir eftirfarandi um Halldór Þorsteinsson frá Vörum:
„Það má með sanni segja, að Halldór í Vörum hafi stundað sjóinn frá barnsaldri, fyrst með föður sínum sem hefur kennt honum sjó, en frá 17 ára aldri var hann formaður á vorvertíð og svo úr því á stærri skipum, áttæringum. Var til þess jafnað hve vel hann sigldi skipum, þótti það listasjón er hann sat við stýri og „upp í hleypti og undan sló, eftir gaf og strengdi kló.“ Það var íþrótt, sögðu menn og færðust í aukana, er þeir minntust á þessa lista siglingu, já, lifnuðu allir við og jafnvel blikaði tár í auga, enda var það fögur sjón að sjá skip svífa seglum þöndum í blásandi byr og vera þess vitandi að hugur og hönd eins manns réði þar ríkjum. Jafnvel telpukrakki, sem ekkert vit hafði á sjómennsku, gat lengi staðið á sjávarkambinum, bergnuminn og horft á svona siglingu og átt síðan þessa heillandi mynd í vitund sinni. En svo komu mótorbátarnir til sögunnar og þá var hafist handa um þá útgerð, bátarnir voru litlir fyrst, en stækkuðu jafnt og þétt. Allir bátar Halldórs í Vörum hafa heitið Gunnar Hámundarson, er hinn síðasti sameign Halldórs og Þorvaldar sonar hans, sem er skipstjóri á bátnum, einnig Þorsteins á Borg.
Halldór Þorsteinsson var ekki aðeins mikill skipstjóri heldur líka frábær aflamaður. Eftir að mótorbátar komu til sögunnar var ógjörningur að landa heima i Garði, því þar vantar góða höfn. Þeir útgerðarbændur í Garði fluttu því um set á vetrarvertíð og höfðu aðsetur í Sandgerði, en allur afli af bátunum var fluttur heim til verkunar. Reyndi þá á dugnað húsfreyjunnar, að taka vel við og hirða aflann, en samfara þeirri vinnu voru að sjálfsögðu heimilisstörf og barnagæzla. Kristjana kona Halldórs var vel þeim vanda vaxin, var hún hraust og harðdugleg, en er börnin uxu upp, voru þau vanin við að hjálpa til við fiskverkunina, hvert eftir sinni getu. Var heimilið því ein starfandi heild. Eftir að Halldór lét af skipstjórn, hefur hann sjálfur séð um hirðingu og verkun aflans og alltaf mun hann hafa haft umsjón með þessum verkum.
En það voru líka gleði- og tómstundir í Vörum. Þar var mikið sungið og var húsbóndinn þar fyrirliði í því sem öðru. Var þá oft, er stund gafst sungið af hjartans list. Nú eru börnin tólf öll flogin úr hreiðrinu, en þegar fjölskyldan kemur saman, og það er oft, er tekið lagið með sama gleiðibrag, er þá ættfaðirinn organisti og forsöngvari og allir verða eitt og börn á ný. Þegar Halldór var ungur að árum gekk hann í barnastúku, sem alltaf hefur starfað í Garðinum. Þorsteinn faðir hans hafði snemma gerst meðlimur Góðtemplarareglunnar og var það alla ævi síðan, hefur Halldór trúlega fetað í fótspor föður síns og er enn í dag starfandi í Reglunni og það sem meira er, allur barnahópurinn hefur fylgt honum. Kristjana kona hans hefur einnig frá unga aldri verið í stúkunni og hefur í því starfi sem öðrum verið manni sínum samhent, enda veitir hún hverju góðu málefni lið. Mér finnst þessi þáttur í lífi þeirra hjónanna í Vörum, vera í frásögur færandi og vissulega öðrum til eftirbreytni. Það væri færra af slysum og sorgum, sjúkdómum og margskonar fjölskylduvandamálum ef fleiri hefðu gengið þá götu, sem hjónin í Vörum hafa farið. Það mun vera meiri hluti Garðverja bindindisfólk enda fara dansleikir og skemmtanir allar þar fram með mestu prýði og menningarbrag. Þannig er búið í Garðinum og mættu ýmis bæjarfélög, sem í vanda eru stödd með skemmtanir, beina þangað sjónum sínum.
Kristjana í Vörum er fædd 2. nóvember 1886 í Hellukoti á Vatnsleysuströnd. Voru foreldrar hennar hjónin Vilborg Halldórsdóttir og Kristján Jónsson bónda í Hellukoti Pálssonar. Þau hjón fluttust nokkru síðar að Breiðagerði næsta bæ fyrir sunnan Auðna, þar bar fundum okkar Kristjönu saman á morgni lífsins, vorum, við þar samtíða í átta ár. Hún var kölluð Sjana, myndartelpa, hæglát og framar öllu góð. Hún var stóra systir, sem ævinlega var hægt að reiða sig á, hún var sterk og hraust, ég held hún hafi aldrei orðið veik og hún kvartaði heldur aldrei yfir neinu, líf hennar leið fram eins og tær lind. Svona hef ég ævinlega munað hana. Foreldrar Sjönu fluttust út í Leiru og þá skildu leiðir, síðan fluttukt þau í Garðinn og leigðu hjá Eggerti í Kothúsum, síðar bjuggu þau í ívarshásum. Bæði voru þau góð og heiðarleg í bezta máta. Ég hef áður minnst þess í Faxa að Vilborg var alsystir Gísla í Ráðagerði í Leiru, voru þau frá Framnesi á Skeiðum, börn Halldórs bónda þar, svo í Hákoti, d. 1846, 50 ára, Magnússonar og konu hans Elísabetar, f. 1811, d. 5 apríl 1869, Gísladóttur bónda í Útverkum á Skeiðum, f. 1769, Jónsonar bónda í Unnarholti í Hrepp, Jónssonar.
Þegar ég gekk til prestsins 1903 var ég rúmar þrjár vikur í Kothúsum hjá Vilborgu og Kristjáni og sótti daglega skóla að Útskálum til séra Friðriks Hallgrímssonar. Sjana var þá heima, falleg stúlka og fönguleg, kynntist ég henni þá á ný, leit upp til hennar, enda vissi ég að hún var harðdugleg og myndarleg. Átti ég mjög góða ævi hjá þeim hjónunum og Sjana var á ný sú góða stóra systir. Svo hefur hún ævinlega verið mér. Það er mikið dagsverk, sem Kristjana í Vörum hefur skilað um ævina. Þrátt fyrir barnafjöldann og störfin bæði úti og inni hefur hún einnig getað sinnt félagsmálum. Ég hef áður minnst á bindindismálin, en hún hefur líka verið virkur þátttakandi í Slysavarnarfélaginu og Kvenfélaginu sem bæði eru þróttmikil félög í byggðalaginu. Nú er hún komin í sessin, saumar út og prjónar á barnabarnabörnin og fleirri niðja. Þorsteinn á Meiðastöðum, faðir Halldórs í Vörum var Borgfirzkur að uppruna, kominn af fólki, sem stóð föstum fótum í ætt sinni og óðali, mikið fróðleiksfólk með lifandi sögu aldanna í sál sinni, stolt og skapmikið, en undir sló gott og göfugt hjarta. Þorsteinn var sonur Gísla bónda á Augastöðum í Hálsasveit, Jakobssonar smiðs og bónda á Húsafelli Snorrasonar prests á Húsafelli Björnssonar. Kona Gísla á Augastöðum var Halldóra, f. 1826, Hannesdóttir bónda á StóraÁsi, Sigurðssonar, Auðunnssonar bónda á Hrísum, Þorleifssonar bónda á Hofsstöðum, Ásmundssonar. Segir Kristleifur fræðimaður á Stóra-Kroppi að sú ætt sé ein þróttmesta bændaætt í Borgarfirði. Mátti hann vel vita það rétta, svo ættfróður sem hann var.“