Út á haf

Á þessari mynd frá 1965 sést lítill bátur leggja af stað frá Keflavík. Skipstjóranum þekki ég ekki deili á en kannski kannast einhver við bátinn. Þá tek ég glaður við ábendingum í athugasemdum hér fyrir neðan.

Apinn í Köben

Árið 1977 fór afi til Svíþjóðar að heimsækja fjölskyldumeðlim og festi þennan apa á filmu, líklega í dýragarðinum í Köben. Mér finnst hann fanga ágætlega tilfinninguna þegar ég áttaði mig á því að ég hafði eyðilagt vefsíðuna mína.

Þá fór allt til fjandans

Mér tókst, með mátulegri blöndu af oftrú og vanþekkingu, að rústa vefsíðunni sem ég var að reyna að koma mér upp. Í örvæntingu hringdi ég í þann sem vistar vefsíðuna og sagði honum að eyða öllu draslinu. ÖLLU! Að fara í gegnum og leiðrétta allt sem mér tókst að eyðileggja var bara of mikið verk.

Skítt með það. Hér var hvort sem er bara eitthvað gamalt rövl um óréttlæti heimsins og duglausa embættismenn. Og svo myndir og upptökur frá afa. Hið síðarnefnda set ég aftur á síðuna en restin fær að eiga sig.