Ég áttaði mig á því áðan að ég hef ekki skrifað stafkrók um hvernig söfnunin í desember gekk svo það best að koma því frá.
Í einu orði sagt stórkostlega!
En í fleiri orðum, þá safnaðist svipuð upphæð og í fyrra eða um hálf milljón. Ég keypti litlar skógjafir fyrir hátt í hundrað börn og notaði restina (sem var þorri upphæðarinnar) í að kaupa jólagjafir sem fóru í úthlutun hjá Velferðarsjóði þar sem um 150 börn eru á framfæri þeirra sem þiggja þar aðstoð. Þökk sé frábærum viðtökum ykkar og góðri aðstoð fyrirtækja sem ég verslaði við gat ég keypt margar og góðar gjafir sem gerðu jólagjafaúthlutun Velferðarsjóðs einstaka á landsvísu.
Gjafirnar ykkar fóru víðar, en um eitt hundrað manns sóttu Vinajól Hjálpræðishersins og fjölmargar gjafir fóru til skjólstæðinga þeirra. Auk þess heimsótti ég Vinasetrið, sem er stuðningsþjónusta og helgarvistun fyrir börn, og sendi öll börnin heim með jólagjafir.
Þúsund þakkir til ykkar allra sem tókuð þátt með fjárframlögum, gjöfum og útréttum hjálparhöndum. Takk fyrir að hugsa til allra þeirra sem glíma við erfiðleika og fyrir að létta undir með þeim. Þó jólin séu tíminn sem svona lagað nær hámarki á hverju ári skulum við muna að hafa augun opin allt árið um kring fyrir fólki sem þarf hjálparhönd og vera tilbúin að aðstoða. Brosum líka meira hvert til annars og verum óspör á hrós.
Takk!