Mér datt í hug að stinga penna á blað …eða fingrum á lyklaborð… og skrifa nokkur orð um móðurmálskennslu barna í Svíþjóð. Hér er það nefninlega svo að öll börn (í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla) sem hafa annað móðurmál en sænsku eiga, að vissum skilyrðum uppfylltum, rétt á kennslu í sínu móðurmáli. Ókeypis.
Það er skólastjóri hvers skóla sem samþykkir og ber ábyrgð á móðurmálskennslunni, þannig að umsóknir fara alltaf í gegnum skólann. Kennslunni eru svo haldið úti af miðlægri stofnun, yfirleitt á vegum kommúnunnar, sem sendir kennara í viðeigandi skóla. Móðurmálskennslan fer fram utan hefðbundinnar stundaskrár.
Hverjir eiga rétt á móðurmálskennslu?
Öll börn sem hafa annað móðurmál en sænsku eiga rétt á kennslu í sínu móðurmáli ef:
- að minnsta kosti annar forráðamaður barnsins hefur tungumálið að móðurmáli,
- tungumálið er lifandi á heimilinu og
- barnið hefur grunnfærni í tungumálinu.
Yfir öllum skólum í Svíþjóð er svokallaður „huvudman“ en það er í flestum tilfellum stjórn hverrar kommúnu. Í tilviki einkaskóla gegnir stjórn skólans þessu hlutverki og þetta getur átt við um allt frá stjórn einstaka sveitaskóla og upp í risabatterí eins og Academedia sem rekur hundruðir skóla. Lögum samkvæmt á „huvudman“ að bjóða móðurmálskennslu í tungumáli ef 5 eða fleiri börn sem tala málið (og vilja læra það) heyra undir skóla sem hann stýrir. Þetta er þó háð þeim skilyrðum að það finnist hæfur kennari.
Til að skilja hvað þetta felur í sér skulum við taka nokkur dæmi:
- Í Litlabæ búa 5 börn sem hafa íslensku að móðurmáli og þau hafa öll skilað inn umsókn um kennslu. Öll börnin eru í skólum á vegum kommúnunnar, sem auglýsir eftir kennara og býður upp á kennslu þegar það er frágengið.
- Í Næstabæ búa 5 börn sem hafa íslensku að móðurmáli. Fjögur þeirra eru í skólum á vegum kommúnunnar og eitt í skóla á vegum lítils einkarekins skóla. Hvorki kommúnunni né einkarekna skólanum ber skylda til að útvega móðurmálskennslu.
- Í Ókeibæ búa 5 börn sem hafa íslensku að móðurmáli. Fjögur þeirra eru í skóla á vegum kommúnunnar og eitt í skóla sem rekinn er af Academedia. Kommúnunni ber ekki skylda til að útvega móðurmálskennslu EN ef það eru samanlagt fimm eða fleiri íslenskumælandi börn í skólum á vegum Academedia hvar sem er í Svíþjóð þá ber Academdia skylda til að útvega kennslu fyrir þau börn því yfir samsteypunni er einn og sami „huvudman“.
Fæstir gera sér grein fyrir dæmi 3 og allar stórar einkareknar skólasamsteypur krossa fingur að fólk átti sig ekki á þessu. En lögin eru ykkar megin ef þið viljið láta reyna á það.
Hvað er kennt í móðurmálstímum?
Móðurmálstímarnir eru fag innan sænsks skólakerfis, rétt eins og stærðfræði, heimilisfræði og samfélagsfræði. Um það gildir sænsk námskrá sem tilgreinir hvað á að kenna og hvernig á að meta það. Tilgangur fagsins er, samkvæmt námskránni, að viðhalda og bæta móðurmálskunnáttu nemendanna, styrkja sjálfsmynd þeirra og tengsl við eigin menningarheim, og gera þeim kleift að byggja á traustum grunni móðurmáls síns í skóla og tilverunni almennt.
Í móðurmálskennslunni fá nemendur að lesa og skrifa texta af ólíkum toga. Það getur verið til að læra um landið okkar og tungumálið, upplifa nýja heima og spegla sig í fjölbreyttum persónum og flóknum aðstæðum, eða til að kynnast nýjum textagerðum og læra nýjar lestraraðferðir. Þau þjálfast í framburði á móðurmálinu sínu og að nota íslensku stafina sem eru svo einstakir. Þau læra helstu ritunarreglur og þjálfast í að þekkja það sem er líkt og ólíkt með því hvernig við notkum sænsku og íslensku. Þau læra að halda uppi samtölum og halda kynningar, og byggja upp orðaforða til að geta tjáð allt það sem þeytist um í kollinum á þeim. Útgangspunkturinn í öllu þessu er landið okkar og menning.
Þetta eru semsagt ekki íslenskutímar eins og við munum eftir úr grunnskólanum á Íslandi. Hér situr maður ekki við orðflokkagreiningar, linnulausar fallbeygingar eða stafsetningarstíla, og líkurnar á að takast á við Gísla sögu Súrssonar eru hverfandi.
Hvers vegna móðurmálskennsla?
Fyrir utan þann augljósa ávinning sem nám gefur, þá eru nokkrar ástæður sem vert er að telja upp.
Fjöltyngi er fjársjóður. Færni í móðurmálinu er undirstaða náms og í fjölþjóðlegu samfélagi nútímans er tungumálakunnátta gulls ígildi.
Frá sjötta bekk fá nemendur einkunn fyrir móðurmálið og þegar kemur að því að sækja um í framhaldsskóla getur það skipt sköpum. Einkunnir í níunda bekk gefa ákveðin stig sem eru reiknuð saman og notuð sem inntökuviðmið í framhaldsskóla. Ef manni gengur vel í móðurmálsnáminu er hægt að skipta út einkunn í öðru fagi fyrir móðurmálseinkunnina.
Í framhaldsskóla gefa áfangar stig og í einhverjum tilfellum er hægt að taka móðurmálstímana í staðinn fyrir valáfanga sem skólinn býður. Þetta fer þó algjörlega eftir námsbrautinni og sá eini sem getur gefið haldbært svar er námskráðgjafi hvers skóla.
Ef einkunn er eina markmiðið (eða ef maður á ekki samleið með kennaranum/hópnum) þá er sá möguleiki fyrir hendi að taka próf í móðurmáli. Grunnskólanemandi tekur prófið út frá lokamarkmiðum 9. bekkjar og framhaldsskólanemi út frá lokamarkmiðum framhaldsskólans. Svo lengi sem hið tiltekna móðurmál er kennt innan kommúnu ber skólayfirvöldum skylda til að bjóða próf í því. Ef nemandi nær einkunn E eða hærra getur hann valið að hætta að mæta, eða að halda áfram til að stefna að hærri einkunn en náðist á prófinu.
Augljóslega mæli ég ekki með þessari leið en það eru tilvik þar sem nemendur eru bara að afplána tímana og þá er þetta kannski fyrir bestu.
Þetta gerist ekki í tómarúmi
Við höfum það svo ótrúlega gott með íslenskukennsluna hér í Svíþjóð. Menntamálayfirvöld á Íslandi eru svo rausnarleg að sjá okkur fyrir ókeypis námsefni og aðgengi að rafrænu íslensku efni er gríðarlegt. Íslenskan, ásamt öðrum norrænum tungumálum og minnihlutamálunum í Svíþjóð, fær undanþágu til að vera kennd öll ár grunnskólans (á móti þeim sjö árum sem allir aðrir verða að gera sér að góðu). Hingað flytur líka kennaramenntað fólk sem getur haldið úti metnaðarfullri og árangursríkri íslenskukennslu.
En ekkert af þessu skiptir nokkru máli ef íslenskunni er ekki haldið á lofti á heimilinu. Ef systkinin tala saman á sænsku og foreldrarnir skjóta inn einstaka íslenskum spurningum um hvernig var í skólanum eða hvort þau ætli ekki að setja diskana í uppþvottavélina, þá breyta 40 mínútna íslenskutímar á viku engu. Þess vegna er gerð krafa við skráningu um að íslenska sé lifandi tungumál á heimilinu. Á heimili með lifandi íslensku segir maður brandara og sögur á íslensku, les saman íslenskar bækur og innbyrðir skemmtiefni á íslensku. Maður notar íslensku til að útskýra reglurnar í rommý þó það gæti verið auðveldara á sænsku og maður les, les og aftur les. Lestur er undirstaða alls náms.
Ég finn svo til með foreldrum sem segja mér frá því hvernig það bara „gerðist einhvernveginn“ að börnin þeirra hættu að tala íslensku. Og ég samgleðst svo innilega börnunum sem segja mér á blæbrigðaríkri og áreynslulausri íslensku frá uppátækjum sínum, tilfinningum og bókunum sem þau lásu á heimilinu þar sem íslenskunni er haldið á lofti og það sem meira er – á lífi.

Skildu eftir svar