Description
„Sumir segja að enn sé búið í Eyðihúsinu þótt Hrólfur hafi verið borinn út í líkkistu í fyrra.“
Guðjón G. Georgsson er nýfluttur í Álftabæ og fær Eyðihúsið á heilann. Milla vinkona hans sá aldrei Hrólf nágranna sinn, ríkasta mann þorpsins, sem bjó í Eyðihúsinu. Hann var víst skapvondur ógæfumaður sem sást sjaldan utandyra því sennilega var honum illa við annað fólk. Dag einn birtist dularfullur trékistill á bókasafnströppunum og bréf frá Hrólfi – þar sem bæjarbúar fá þrjár vísbendingar, þrjá lykla að leyndardómum lífs hans og fjársjóðum. Lausnin er ekki einföld. Og sannarlega ekki hættulaus. En þá er gott að Guðjón G. Georgsson og Milla eru saman í liði.
Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins eftir Snæbjörn Arngrímsson hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2019. Þetta er grípandi saga um heillandi og svolítið hræðilega ráðgátu og hugrökk og huglaus börn.