Upp er komin sérstök staða í leit Keflavíkurkirkju að presti til starfa við kirkjuna. Eins og Víkurfréttir greindu frá á dögunum gengur fólk nú í hús til að safna undirskriftum til að fara fram á prestskosningu, en heimild til slíks er í starfsreglum Þjóðkirkjunnar og sérstaklega tilgreind í auglýsingu um starfið. Það var einmitt í samræmi við þær reglur sem stuðningsfólk sr. Erlu fór fram á kosningu sem á endanum tryggði henni embættið en nú er uppi ágreiningur um hvort söfnun á rétt á sér.

Það eru nokkur göt í umræðunni sem ég hef verið að reyna að fylla upp í, sjálfum mér til skemmtunar og vonandi einhverjum til upplýsingar.

Ráðningarferlið – fyrsta lota

Þannig er að auglýst var eftir presti í febrúar á þessu ári á sama tíma og auglýst var eftir sóknarpresti en af einhverjum ástæðum dróst ráðningarferli prests langt umfram heimildir og á endanum fór svo að valnefnd, skipuð fulltrúum sóknarnefndar og fulltrúum Biskups, mælti einróma með einum umsækjenda í starfið. Hann skulum nú við kalla „umsækjanda A“ til einföldunar.

Í auglýsingunni, sem birt var í febrúar, er sérstaklega tekið fram að við valið verði rík áhersla lögð á kunnáttu og reynslu af starfi með börnum og ungmennum. Með hliðsjón af því hafnaði Biskup ráðningunni og vísaði í 10. grein starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Þar stendur m.a. eftirfarandi:

„Við matið skal valnefnd leggja til grundvallar guðfræðimenntun, starfsreynslu, starfsferil svo og hæfni til boðunar og sálgæslu og samskiptahæfni umsækjanda og hvernig umsækjendur uppfylli sérstök skilyrði eða sérstaka hæfni ef slíkt er áskilið í auglýsingu.“

Biskup mat það svo að umsækjandi A uppfyllti skilyrðin ekki betur en aðrir umsækjendur sem höfðu nær allir talsvert meiri reynslu en hann af barna- og unglingastarfi og hafnaði því ráðningunni enda væri hún brot á starfsreglum.

Auk ofangreindra annmarka stendur umsækjandi A nokkrum öðrum umsækjendum aftar hvað varðar bæði menntun og starfsreynslu þannig að það er ljóst að hann uppfyllir ekki skilyrðin sem starfsreglur valnefndar tilgreina. Þetta virðist nefndin hafa verið meðvituð um enda byggir hún rökstuðning valsins nær einvörðungu á huglægu mati ef frá er talin fullyrðing um hve vel umsækjandinn uppfylli skilyrði um barnastarf, sem er beinlínis röng. Í skjölum nefndarinnar er ennfremur vísað í matsblöð og stigagjöf en þau hefur enginn umsækjenda fengið að sjá.

Enginn valinn – aftur auglýst

13. grein starfsreglna um val og veitingu prestsembætta gefur Biskupi – auk valds til að hafna tilnefndum aðila – svigrúm til að velja hæfari umsækjanda, framlengja umsóknarfrest eða auglýsa embættið að nýju. Ekkert varð úr fyrsta og öðrum kosti svo nauðsynlegt var að auglýsa embættið að nýju.

Í nýju auglýsingunni var tekin út krafan um reynslu af barnastarfi, sem er kannski skiljanlegt þar sem reynd manneskja á því sviði er nú sóknarprestur og nú megi einblína á aðra kosti.

Ég hef rætt við ýmsa aðila tengda þessu máli á undanförnum dögum og sú skoðun er útbreidd að ávallt hafi staðið til að ráða umsækjanda A, jafnvel áður en umsóknarferlið hófst. Sú fullyrðing ein og sér hljómar eins og úr lausu lofti gripin en þrennt gefur henni byr undir vængi. Í fyrsta lagi, þó léttvægt sé, að í nýju auglýsingunni hafi verið fjarlægð ein hindrun sem er á að umsækjandi A fái starfið. Í annan stað að enginn umsækjenda sem ég hef rætt við kannast við að haft hafi verið samband við meðmælendur í umsóknarferlinu og í þriðja lagi það að þegar valnefndin kom saman til að ræða við umsækjendur var skv. fundargerð einum nefndarmanni umhugað að vita í upphafi fundar hvort umsækjendur gætu farið fram á rökstuðning ákvörðunarinnar.

Of langt seilst? Ég veit það ekki. Ég get ekki – sama hvað ég pæli í þessu yfir uppvaski, á klóinu, undir sæng eða úti að ganga – fengið það út hvers vegna það sé umhugsunarefni í eðlilegu og löglegu ferli hvort umsækjendur fái að sjá rökstuðning stjórnsýsluákvörðunar.

En nóg um það.

Krókur á móti bragði?

Embættið var semsagt auglýst að nýju og umsóknarfrestur rennur út 7. ágúst. Í millitíðinni fór hópur fólks í Reykjanesbæ af stað til að safna undirskriftum þeirra sem vilja að fram fari prestskosning. Víkurfréttir afgreiddu þá söfnun í slúðurfréttastíl og birtu sögusagnir innhringjenda sem sögðu að fólk úr Njarðvíkursókn væri að með blekkingum að safna nöfnum og að sóknarpresturinn í Njarðvík stæði örugglega að þessari söfnun. Því var svo auðvitað bætt við að dóttir prestsins hefði verið meðal umsækjenda.

Víkurfréttir höfðu hvorki samband við sóknarprestinn í Njarðvík né dóttur hans áður en greinin var birt og höfðu heldur ekki fyrir því að hafa uppi á ábyrgðarmanni söfnunarinnar, Leifi A. Ísakssyni. Svo skemmtilega vill til að hann er með lögheimili í póstnúmeri 230, er fyrrum sóknarnefndarmeðlimur og meðhjálpari í Keflavíkurkirkju og er ekkert að fela ábyrgð sína á söfnuninni, enda hefur hann birt tvær greinar í Víkurfréttum til að tala máli þeirra sem fara fram á kosningu. Leifur er meðal þeirra fjölmörgu sem ég hef rætt við og hann þvertekur fyrir að krafa um kosningu sé til að greiða götu Maríu í embættið.

Segir hann satt?

Skiptir það máli?

Kirkja fólksins

„Keflavíkurkirkja hefur frá upphafi verið kirkja fólksins. Sjálfboðaliðar hafa þar gegnt mikilvægu hlutverki og í raun verið í burðarhlutverki. Fer vel á því að fólkið taki með beinum hætti þátt í því að velja sér prest. Það er mögulegt samkvæmt reglum um val á presti en þá þarf minnst þriðjungur atkvæðisbærra sóknarbarna að setja nafn sitt á undirskriftarlista þar sem farið er fram á almennar kosningar. […] Við hvetjum Keflvíkinga til að sameina krafta sína og fara fram á að almennar prestkosningar fari fram í sókninni. Þá getum við sjálf valið okkur manneskju, óbundin af þeim reglum sem gilda um val á opinberum embættismönnum. Kirkja fólksins á að fá að velja sér þann prest sem þar á að þjóna.“

Svo hljóðaði hluti greinar sem birtist í Víkurfréttum í febrúar á þessu ári. Þá skrifaði fólk sem vildi kosningu um sóknarprest svo hægt væri að koma að þeirri manneskju sem meirihluta sóknarbarna þóknaðist og það var ljóst frá upphafi. Reyndir guðfræðingar og prestar drógu sig til hlés og Erla var ein í framboði. Ef kosningar fara aftur fram er deginum ljósara að utanbæjarfólk á við ramman reip að draga gegn heimakonunni Maríu kjósi hún að bjóða sig fram. En ef hún sigrar, hefur þá ekki vilji fólksins sigrað að nýju?

Sami hópur og barðist fyrir kosningu í febrúar berst nú gegn henni því vilji fólksins skiptir í þetta skiptið minna máli en vilji 10 manna valnefndar og auðvitað sóknarprestsins sem skv. reglum hefur umsagnarrétt en ekki atkvæðisrétt. Það er vissulega sjónarmið í málinu að sóknarpresturinn og lykilfólk sóknarinnar eigi að geta handvalið í embættið því á litlum vinnustað skiptir gott samspil miklu máli.

En það skiptir líka máli að leika eftir reglum og það var ekki gert í þessu tilfelli. Niðurstaða valnefndar var á skjön við þá reglugerð sem hún starfar eftir og Biskup lék eftir reglunum þegar hún hafnaði henni.

Þeir sem berjast gegn kosningunni segja að margir mjög hæfir guðfræðingar og prestar hafi lýst áhuga á embættinu nú þegar það verður auglýst að nýju en vilji ekki taka þátt verði kosið um embættið, en slíkt muni veikja þjónustu Keflavíkurkirkju. Það gleymist að nefna að það voru líka margir mjög hæfir guðfræðingar sem sóttu um þessa stöðu í fyrsta umsóknarferli en gengið var framhjá þeim. Ef tilgangur þessa alls er að velja mjög hæfan guðfræðing í starfið hefði mátt komast hjá þessu veseni með því að velja einhvern hinna löglegu umsækjenda í fyrstu tilraun. Einhverra hluta vegna var það ekki gert.

Þegar allt ofangreint er tekið saman lítur út fyrir að í Keflavík sé í uppsiglingu barátta tveggja fylkinga. Hvað svo sem skrifað er um lýðræðishugsjón og fagmennsku þá stendur það eftir að sigur hvorrar fylkingar leiðir væntanlega aðeins til einnar mögulegrar niðurstöðu. Það held ég að báðir aðilar viti þó hvorugur viðurkenni það.

En það er bara mín skoðun.