Það er margt líkt með okkur skandinavísku frændunum en eitt og annað skilur þó á milli eins og ég hef fengið að læra með mismiklum erfiðismunum.

Fika var augljós menningarstólpi þegar ég fluttist hingað. Svíunum fannst svo kjút að segja frá því hvað þeim finnst fika merkileg og ég er alltaf til kaffi og með’í sama hvað við köllum það. Talandi um hvað það er kallað, þá gæti ég byrjað á að útskýra hvað er hér átt við. Einhverjar túristabækur um Svíþjóð veit ég að segja frá því að fika sé leyniorð sem Svíarnir notuðu yfir kaffi svo fólk gæti talað um það á bannárunum en það er ekki rétt.

Stöldrum samt aðeins við kaffibannárin áður en lengra er haldið. Eða… förum bara alveg á byrjunarreit, þegar Claes Brorson Rålamb var fyrstur Svía til að smakka kaffi í Konstantínópel árið 1657. Hann var allavega sá fyrsti til að skrifa um það og annað telst auðvitað ekki með.

Með hjálp gervigreindar fannst þessi mynd af atburðinum.

Kaffi hélt þó ekki innreið sína í Svíþjóð fyrr en nokkru seinna. Það var þá bara á færi fína og ríka fólksins enda kostaði hálft kíló af kaffi 50 kopardali sem jafngilti árslaunum verkamanns. Verðið lækkaði og aðgengið jókst og kaffiboð (e. kafferep) urðu vinsæl dægrastytting á öllum betri heimilum. Meðlætið skipti máli og það skyldu vera sjö sortir af kökum í boði. Væru þær færri var maður nískupúki – fleiri en sjö og þá var maður hrokafullur.

Svíar nutu kaffisins svo mikið að konungurinn fékk áhyggjur af því að of miklir peningar væru sendir til útlanda í skiptum fyrir kaffi og lagði blátt bann við innflutningi á því. Þetta gerðist nokkrum sinnum á 18. öldinni og hafði helst þau áhrif að Svíar sturtuðu enn meira kaffi í sig þegar þeir máttu það loksins.

Kaffineysla almennings tók við sér á seinni hluta 19 aldar og á tímanum sem leið fram yfir aldamótin margfaldaðist innflutningur á kaffi fyrir Svíana sem drukku kaffi kvölds og morgna og miðjan dag.

Það var svo rétt eftir aldamótin 1900 sem orðið fika var skrásett og það var svokallað ”bakslangur” þar sem aftasta hluta orðs er kastað fram fyrir. Önnur dæmi eru pickelnyga (nyckelpiga), sprittsmidning (smittspridning) og pepåka (påpeka).

Það hafði semsagt ekkert að gera með bannárin.

En þá að því sem ég ætlaði upphaflega að skrifa um. Að fá sér fika snýst ekki bara um að sötra kaffi, maula kruðerí og spjalla við fólk ef maður er ekki einn. Á vinnustöðum er þetta hreinsta birtingarmynd lýðræðisins. Afmörkuð stund bæði fyrir og eftir hádegi þar sem yfir- og undirmenn sitja saman við kaffiborðið og ræða hversdagsleg málefni sem jafningjar. Svolítið í ætt við heitu pottana heima.

Ég var ekkert sérlega hrifinn af þessu á mínum gamla vinnustað því umræðuefnið var nær undantekningarlaust garðyrkja eða eldamennska og við þetta sat fólkið í nákvæmlega hálftíma tvisvar á dag. Ég kaus að drekka frekar kaffið við tölvuna en fékk að vita einhverju sinni að þetta þætti argasti ósiður og andfélagsleg heðgun. Ég lét mig því hafa þetta og kom reyndar frá því með ágætis uppskrift að hummus svo eitthvað sé nefnt.

Að forðast kaffispjallið var samt ekki það versta kaffistofutengda sem ég gerði. Einn daginn kem ég fram til að fylla á kaffibollann minn og sé að einhver er búinn að leggja konfektask á borðið. Úr askinum, sem var tveggja hæða, var búið að borða alla bitana sem varið var í á efri hæðinni og eftir lágu líkjörmolarnir og rommrúsínusúkkulaðið, reiðubúnir að vera bitnir í tvennt og laumulega vafið inn í tissjú þegar þolandinn áttar sig á viðbjóðnum.

Bitarnir voru ekki nema kannski fimm eða sex, svo ég barasta sturtaði þeim úr efri hæðinni yfir á næstu, henti plastinu og hvarf glaður inn á skrifstofuna mína með ljúffengan rjómanúggatmola í annarri og kaffi í hinni.

Nokkru síðar heyrði ég í tveim (eldri) samstarfskonum mínum hneykslast með andfælum.

„Hver gerir svona!?“

„Þetta er fyrir neðan allar hellur…“

Ég gekkauðvitað á hljóðið og sá þær standa á kaffistofunni yfir konfektkassanum og þær náðu varla andanum yfir því að einhver hafi byrjað á neðri hæðinni áður en sú efsta var búin.

„Sumt fólk er greinilega alið upp af úlfum,“ sagði ég með hendur á mjöðmum.

Ég viðurkenndi aldrei glæpinn en ég hef stundum sagt fólki þessa sögu og ég get trúað ykkur fyrir því að ef áheyrandinn er Svíi kemst ég ekki lengra en að: „…svo ég tók bara upp efri hæðina…“ þegar úr þeim sleppur angistarfullt „Nei..?“ eins og ég hafði sagt: „…svo ég settist á hækjur mér yfir kassann…“

Betra fólk hefði kannski lært eitthvað af þessu en ég afhjúpa villimennsku mína reglulega með þessari sögu og sturta enn súkkulaði til að fá það sem ég vil.


Lämna ett svar

Din e-postadress kommer inte publiceras. Obligatoriska fält är märkta *