Fyrsta skrefið í farsælum flutningi til Lundar er að finna sér húsnæði. Markaðurinn er umsetinn, sérstaklega um það leyti sem nýnemar fá staðfestingu á skólavist. Þó það sé stressandi á köflum þá er það alveg gerlegt að verða sér úti um húsnæði í tæka tíð.

Tegundir af húsnæði
Að vera „inneboende“ er mjög algengt, en þá leigir maður herbergi í íbúð og deilir almennum rýmum með eigandanum (og í sumum tilfellum öðrum leigjendum). Stundum fylgir jafnvel aðgengi að eigin salerni. „Kollektiv“ er skylt því en þá býr er félagslegi þátturinn sterkur og oft eru þá sameiginleg verkefni fyrir íbúa eins og að skiptast á að elda kvöldmat. Þannig búsetuform geta verið allt frá því að leigja herbergi í íbúð og yfir í íbúðir í stærra húsnæði.

Fjölbýlishús eru almennt í eigu fyrirtækja og þá kaupa eigendur íbúðanna eignarhlut í félaginu til að fá íbúð og greiða svo ákveðna mánaðarlega upphæð til félagsins fyrir viðhald og annan sameiginlegan kostnað. Þegar eigandi þannig íbúðar velur að leigja hana er það gert með svokölluðu „andrahandskontrakt“ vegna þess að útleigan er háð leyfi eiganda fjölbýlishússins, sem er þá fyrirtækið. Ef þú leigir íbúð skaltu þess vegna ganga úr skugga um að fyrir liggi leyfi hjá fyrirtækinu því annars gæti þér verið vikið úr íbúðinni á leigutímanum. Yfirleitt eru svona samningar ekki gerðir til lengri tíma en 2ja ára.

Þú getur leigt íbúð beint af leigufélagi og færð þá svokallað „förstahandskontrakt“ sem getur gilt ótímabundið. Til að eiga möguleika á svona íbúð skráir maður sig yfirleitt í röð til að safna punktum eftir því sem tíminn líður. Hér eru nokkur leigufélög í Lundi:

Ég veit að fólk hefur ágætis reynslu af að fylgja umsókn til Heimstaden eftir á með tölvupósti. Þau eru á yfirborðinu með lista en ég veit til þess að þau hafa handvalið úr röðinni og hafa góða reynslu af að leigja Íslendingum. Jakri AB á húsnæði í Jakriborg, sem er sjarmerandi húsaþyrping í gömlum stíl rétt fyrir utan Lund. Þar er engin röð og maður sækir um hverja íbúð sérstaklega með bréfi til fyrirtækisins. Ég þekki ekki til AB Hörnstenen eða Paulssons öðruvísi en að hafa fundið félögin gegnum netleit en það sakar varla að skrá sig þar. Ef beðið er um kennitölu skaltu snúa við fyrstu sex tölunum svo það sé ár-mánuður-dagur og bæta svo við fjórum valfrjálsum tölum eða stöfum. Þú getur svo útskýrt í athugasemd hvernig liggur í öllusaman.

Einbýlishús og raðhús eru almennt í einkaeigu og þá geturðu gert „förstahandskontrakt“ við eigandann.

AF Bostäder á um 6000 stúdentaíbúðir og -herbergi í Lundi. Sem nýnemi (novisch) geturðu tekið þátt í húsnæðislottóinu og þá skiptir máli að fylgja ferlinu 100% og ekki sækja um áður en opnað er fyrir umsóknir.

Rétt verð og réttindi leigjenda
Þrátt fyrir að mikil eftirspurn sé á leigumarkaðnum rjúka verðin ekki upp úr öllu valdi vegna þess að í húsnæðislögum er kveðið á um réttláta leigu, sem á sænsku kallast „skälig hyra“. Leiguna er hægt að reikna út með reiknivélum á netinu. Ef húsnæði er leigt út með húsgögnum má leggja 15% ofan á leiguverðið.

Þegar þú hefur komið þér fyrir í leighúsnæðinu skaltu ganga í Hyresgästföreningen sem eru réttindasamtök leigjenda. Þau reynast vel ef þú ert með spurningar eða lendir upp á kant við leigusalann.

Leitin að húsnæði
Facebook er vinsæll vettvangur fyrir leiguauglýsingar. Því miður er mikið um svikahrappa á síðunum svo þú þarft að hafa varann á. Meira um það síðar. Sjálfur held ég úti Facebook-hóp fyrir nemendur í leit að húsnæði og þar eltist ég grimmt við svikarana til að halda þeim úti. Aðrir hópar virðast ekki taka á vandamálinu og opnir hópar eru sérlega viðkvæmar fyrir ágangi svikara. Í nafni réttlætis birti ég hér tengla á nokkra hópa til viðbótar sem þú getur valið úr:

Bopoolen.nu er auglýsingasíða sem er rekin af nemendafélögum og þar geta bæði leigusalar og leigjendur auglýst eftir húsnæði.

Blocket.se er stærsta smáauglýsingasíða Svíþjóðar en til þess að geta sent eða svarað skilaboðum á síðunni þarftu að staðfesta aðganginn þinn með sænsku símanúmeri og slíkt færðu núorðið aðeins með sænskri kennitölu.

Margir leigusalar kjósa að velja leigjanda úr auglýsingum frekar en að auglýsa húsnæðið sitt og fá þúsund tölvupósta. Þess vegna skaltu búa til auglýsingu um þig þar sem þú dregur ekkert úr því hvað þú yrðir frábær leigjandi. Birtu mynd af þér til að fanga athygli og segðu frá þér sem persónu en líka hvernig þú fjármagnar dvölina og hverju þú ert að leita að.

Gættu þín á svikurum!
Á hverju ári eru væntanlegir stúdentar sviknir um hundruðir þúsunda og standa svo uppi heimilislausir þegar hingað er komið. Fyrir ykkur sem sækið um frá útlöndum snýst svindlið um að láta ykkur greiða fyrirfram fyrir íbúð út á samning sem reynist svo vera falskur. Það er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart auglýsingum sem innihalda ekki myndir frá húsnæðinu eða ef sá/sú sem birtir auglýsinguna er ekki skráð(ur) á síðuna ratsit.se. Á þeirri síðu er hægt að fletta upp svo að segja öllum í Svíþjóð.

Fáðu heimilisfangið og biddu um myndsamtal þar sem þú færð að skoða íbúðina. Biddu um að sjá útsýnið eða húsið að utan og flettu svo húsnæðinu upp á Google Maps og gáðu hvort allt stemmir.

Best væri að borga ekkert fyrirfram en staðan er sú að margir leigusalar vilja fá fyrirframgreiðslu til að festa íbúðina með góðum leigjanda sem hættir þá ekki við ef eitthvað betra býðst. Ef þú borgar eitthvað fyrirfram, gerðu það þá aldrei öðruvísi en inn á sænskan bankareikning. Biddu um IBAN/SWIFT númerið hjá viðkomandi og flettu upp SWIFT-númerinu til að vera viss um að það sé í sænskum banka. Þegar þið gerið samninginn skaltu passa að kennitala viðkomandi sé á honum (og staðfesta persónuupplýsingarnar sem þú færð gegnum ratsit.is) og ef þú ert í einhverjum vafa er ekkert að því að biðja um að sjá nafnskírteini viðkomandi til staðfestingar.

Þumalputtaregla sem getur sparað þér mikinn tíma er að allir sem segjast hafa ábendingu um íbúð og vísa þér á netfang eða WhatsApp númer eru svikarar. Þetta er augljósasta aðferð svikaranna því það er fljótlegra að skipta út netfangi/WhatsApp númeri en Facebook-aðgangi þegar aðgangurinn er tilkynntur fyrir svindl. Ef þú færð svona skilaboð er bara að senda fingurinn og halda áfram með lífið.

Þetta var held ég allt sem ég hef að segja um málið… Gangi þér vel!




Lämna ett svar

Din e-postadress kommer inte publiceras. Obligatoriska fält är märkta *

error: Þetta efni er höfundarréttarvarið.