Reglulega auglýsa væntanlegir háskólanemendur örvæntingarfullir eftir húsnæði hér í Lundi og þá er ekki úr vegi að fara yfir nokkur góð ráð fyrir leitina. Rétt er að horfast í augu við að þetta er drulluerfitt en alls ekki vonlaust! Þúsundir nemenda eru að leita að húsnæði samtímis og þá gildir að hafa allar klær úti. 

Fyrsta mál á dagskrá er að skrá þig í röð hjá AF Bostader. Sem nýnemi (novisch) geturðu tekið þátt í húsnæðislottóinu og þá skiptir máli að fylgja ferlinu 100% og ekki sækja um áður en opnað er fyrir umsóknir.

Samhliða því að leita hjá AF bostader ættirðu að skella þér út á frjálsa markaðinn. Nemendafélögin í Lundi reka vefsíðu, BoPoolen.se, þar sem leigjendur og leigusalar geta sett auglýst sjálfa sig og íbúðir til leigu. Það kostar ekkert að skrá sig eða birta auglýsingu. Blocket, sem er stór auglýsingasíða hér í Svíþjóð, býður upp á húsnæðisauglýsingar en til að geta svarað skilaboðum á síðunni þarf að gefa upp sænskt símanúmer, og slíkt fær maður núorðið aðeins ef maður á sænska kennitölu. Svo er það auðvitað Facebook með síður eins og þessar:

Samkeppnin er mikil svo ég mæli með því að þú búir til auglýsingu fyrir þig jafnframt því sem þú flettir auglýsingum annarra. Birtu mynd af þér til að fanga athygli og segðu frá þér sem persónu en líka hvernig þú fjármagnar dvölina og hverju þú ert að leita að. Mundu að fyrir hverja íbúð sem þú sækir um eru 150 aðrir sem senda póst.

Framboðið á almenna leigumarkaðnum er aðallega íbúðir og svo herbergi sem skiptast annars vegar í herbergi í deildu húsnæði með öðrum nemendum (korridorrum) og herbergi inni á heimili (inneboende). Með herbergjunum fylgir yfirleitt aðgangur að eldhúsi, baðherbergi og einhverjum deildum rýmum.

Vertu vakandi fyrir svindli

Það er því miður rosalega mikið um svik og pretti á leigumarkaðnum. Fyrir ykkur sem sækið um frá útlöndum snýst svindlið um að láta ykkur greiða fyrirfram fyrir íbúð út á samning sem reynist svo vera falskur. Það er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart auglýsingum sem innihalda ekki myndir frá húsnæðinu eða ef sá/sú sem birtir auglýsinguna er ekki skráð(ur) á síðuna ratsit.se. Á þeirri síðu er hægt að fletta upp svo að segja öllum í Svíþjóð.
Fáðu heimilisfangið og biddu um myndsamtal þar sem þú færð að skoða íbúðina. Biddu um að sjá útsýnið og flettu svo húsnæðinu upp á Google Maps og gáðu hvort allt stemmir.
Best væri að borga ekkert fyrirfram en staðan er sú að margir leigusalar vilja fá fyrirframgreiðslu til að festa íbúðina með góðum leigjanda sem hættir þá ekki við ef eitthvað betra býðst. Ef þú borgar eitthvað fyrirfram, gerðu það þá ekki gegnum greiðslusíður og aldrei án þess að hafa undirritað samning við leigusalann. Biddu um IBAN/SWIFT númerið hjá viðkomandi og flettu upp SWIFT-númerinu til að vera viss um að það sé í sænskum banka. Þegar þið gerið samninginn skaltu passa að kennitala viðkomandi sé á honum (og staðfesta persónuupplýsingarnar sem þú færð gegnum ratsit.is) og ef þú ert í einhverjum vafa er ekkert að því að biðja um að sjá nafnskírteini viðkomandi til staðfestingar.

Leigufélög

Ef þú ert að flytja út með fjölskylduna þá viltu kannski hafa meira öryggi og rými en býðst með herbergi hjá eftirlaunaþega eða á stúdentagangi. Þú getur eflaust fundið eitthvað á síðunum fyrir ofan og þú skalt ekki sleppa því að gera þá auglýsingu um ykkur fjölskylduna. Þar fyrir utan skaltu skrá þig hjá leigufélögunum sem eru starfrækt í Lundi:

Ég veit að fólk hefur ágætis reynslu af að fylgja umsókn til Heimstaden eftir með tölvupósti. Þau eru á yfirborðinu með lista en ég veit til þess að þau hafa handvalið úr röðinni og hafa góða reynslu af að leigja Íslendingum. Jakri AB á húsnæði í Jakriborg, sem er sjarmerandi húsaþyrping í gömlum stíl rétt fyrir utan Lund. Þar er enginn röð og maður sækir um hverja íbúð sérstaklega með bréfi til fyrirtækisins.
Ég þekki ekki til AB Hörnstenen eða Paulssons öðruvísi en að hafa fundið félögin gegnum netleit en það sakar varla að skrá sig þar. Ef beðið er um kennitölu skaltu snúa við fyrstu sex tölunum svo það sé ár-mánuður-dagur og bæta svo við fjórum valfrjálsum tölum eða stöfum. Þú getur svo útskýrt í athugasemd hvernig liggur í öllusaman.
 
Ég skrifa eflaust meira þegar mér dettur fleiri góð ráð í hug en þetta dugar í bili. Gangi þér vel!


Lämna ett svar

Din e-postadress kommer inte publiceras. Obligatoriska fält är märkta *

error: Þetta efni er höfundarréttarvarið.