Á fundi sem Árni Sigfússon átti með stjórnendum Skólamatar fyrir skömmu tók bæjarstjóri þá ákvörðun að bjóða grunnskólabörnum upp í Reykjanesbæ upp á frían graut í morgunmat. Öðlingurinn Árni tók þessa ákvörðun án nokkurs sýnilegs samráðs við bæjarráð eða fræðsluráð og að því er virðist án þess að nokkur umræða hafi farið fram um málið innan stjórnsýslunnar.
Það er alveg magnað eitt og sér að Árni upplifi sig sem slíkan einvald að hann afgreiðir svona lagað eins og hendi sé veifað en tímasetningin er ekki síður áhugaverð.
Í einhverju örvæntingarfálmi til að bregðast við umfjöllun (m.a. hér) um hve aftarlega svöng börn virðast lenda í forgangsröð bæjarins notar Árni stöðu sína til að næla í sig skrautfjöður á kostnað bæjarsjóðs rétt fyrir kosningar.
Áætlað er að þetta byrji næsta miðvikudag og ég reikna fastlega með að því fylgi fagurgali í Víkurfréttum með mynd af Árna.
Ég skúbba hér með þeirri frétt úr höndum þeirra.
Þessi ákvörðun er tekin korter í kosningar þrátt fyrir að lengi hafi verið umræða um þörfina á að gera þetta en hvorki hefur fundist vilji né peningar. Fyrr en nú.
Eins og með margt annað hjá Sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ virðist áherslan vera fyrst og fremst á að skapa gott fréttatækifæri. Það sést á því að þetta kosningatrikk er kokkað upp í svo miklum flýti að enginn tími er til að skipuleggja dreifinguna svo gert er ráð fyrir að fara þá auðveldu leið að útdeila grautnum eingöngu til unglinga í fyrstu frímínútum dagsins kl. 9:30 þegar þeir mega vera inni en yngri börnin ekki. En hvað gerir maður ekki fyrir góðan fréttaflutning?
Allir stjórnmálamenn elska myndir af sér vera góðir við börn því þær vekja svo ljúf hugrenningatengsl hjá kjósendum og þó ég sé að skúbba þessari frétt frá vinum Árna get ég ekki með góðri samvisku haft af honum tækifærið. Því læt ég fylgja með þessa teikningu sem ég tel að fangi nokkuð vel væntingar þeirra: