Tvö ár frá kulnun

Mér varð litið á dagatalið í dag og áttaði mig þá á því að það eru um það bil tvö ár frá því að ég var á mögulega lægsta punkti lífs míns, mitt í grófri kulnun. Um þetta leyti sat ég í fyrirlestrarsal á fínu hóteli með tugum kollega og hlustaði á fyrirlestur um skólaþróun. Ég gat ekki einbeitt mér að því sem fyrirlesarinn sagði, því um höfuð mitt þeyttust hugsanir um allt sem biði mín að gera þegar ég kæmi til baka á skrifstofuna. Allt sem ég þyrfti að græja sem næsti yfirmaður 35 kennara, en líka sem tölvuumsjónarmaður og tækniráðgjafi í stofnun sem innihélt rúmlega eitt hundrað starfsmenn og þjónustaði 4000 nemendur í 70 skólum. Síðastnefndi hlutinn var nokkuð sem yfirmaður minn áleit að maður gerði bara í hjáverkum.

Ég var búinn að gefast upp á því að andmæla vinnuálaginu. Ég gerði síðustu heiðarlegu tilraunina þegar ég var, ári áður á kafi í covid, að færa alla okkar kennslu yfir á stafrænt form og var einn í því að hjálpa mistækniheftum kennurunum að læra á Classroom, fjarfundakerfi, skjaladeilingar og fleira frá morgni til kvölds. Allir voru heima hjá sér (nema við yfirmennirnir) og ég var linnulaust á fjarfundum með kennurum að leiðbeina þeim eða fjarstýra tölvunum þeirra, búa til leiðbeiningar, halda námskeið, leysa tæknileg vandamál sem komu upp milli skólakerfanna, á heimilum nemendanna… og pósthólfið mitt fylltist hraðar en ég gat fengist við, þó ég sæti fram yfir miðnætti á hverjum einasta degi að svara póstum.

„Mér finnst eins og ég sé að drukkna,“ sagði ég og gróf andlitið í höndum mér yfir kaffibolla í eitt af fáum skiptum sem ég leyfði mér að drekka kaffi með hinum yfirmönnunum. Yfirmaður minn horfði spurul á mig svo ég hélt áfram: „Allir eru endalaust að biðja mig um að leysa vandamálin sín og ég bara sé ekki fyrir endann á því.“

„Hvað ertu eiginlega að tala um? Það er enginn hér.“

Þarna var ég orðinn svo brotinn að ég gat ekki orðið jafn reiður og ég hefði átt að vera yfir svo hálfvitalegu svari.

Eftir margar gráthrinur hjá sálfræðingi hef ég áttað mig á að eitthvað af því sem ég gekk í gegnum var sjálfskaparvíti því ég er haldinn krónískri helvítis þörf að passa að allir aðrir hafi það gott meðan ég er staurblindur á kostnaðinn sem það tekur út á mér. Ég hefði átt að vera löngu búinn að setja niður fótinn yfir gjörsamlega óásættanlegum vinnuaðstæðum en mér tókst alltaf að sannfæra mig um að ég bara dygði ekki til. Ég er enn að kljást við að finnast það.

Allavega, ég skildi ekki orðin sem fyrirlesarinn sagði og áttaði mig ekki á hvað glærurnar sýndu. Fyrirlesturinn fjallaði um þau margþættu þróunarverkefni sem skólastjórnendur vinna að og mér fannst þetta eins og ljótur brandari – áminning um það sem var ætlast til að ég sinnti sem skólastjórnandi án þess að ég hefði til þess mínútu aflögu. Ég vissi sem var að ekki kjaftur af þeim sem þarna voru þurfti að sinna tölvuumsjón samhliða starfinu því það var á könnu annarra en stjórnenda. Allt snerist um að vera í stöðugri þróun og góður árangur í því var hið raunverulega virði stjórnandans á öllum stöðufundum sem ég hafði afplánað. Ég upplifði mig skyndilega svo einmana og hjálparlausan. Mér fannst eins og höfuðið væri að losna af límingunum samtímis sem sessunautur minn hallaði sér að mér og sagði: „Hver eru helstu þróunarverkefnin sem þú ert að vinna að?“

„Hvaða andskotans þróunarverkefni!? Ég lagaði sama stíflaða prentarann átta sinnum í síðustu viku. Viltu vita meira um það? Ég hjálpaði fólki að finna takkann til að kveikja á vefmyndavélinni sinni og sýndi kollega mínum í þriðja skipti hvernig maður uppfærir fréttir á starfsmannavefnum. Kollega sem er í sama stöðugildi og ég, án tölvuumsjónar, og situr iðulega með kaffibolla og góða bók á skrifstofunni sinni til að vera með puttann á púlsinum meðan ég staula um skrifstofuna með snúrur vafðar um alla útlimi að leysa fjögur tölvuvandamál samtímis meðan ég bið til guðanna að ég geti mögulega borðað hádegismatinn minn þann daginn án þess að einhver oti tölvu í andlitið á mér vegna þess að hann er búinn að setja tölvupósthólfið sitt í öfuga tímaröð og finnur ekki neitt. Ég hef ekki tíma fyrir fokking þróunarverkefni vegna þess að ég er upptekin alla daga, allan djöfulsins daginn, við að leysa vandamál annarra!!“

…langaði mig að segja, en í staðinn sagðist ég þurfa að fara á klósettið. Ég fór upp á hótelherbergi, dró sæng yfir höfuðið á mér og grét þar til ég sofnaði. Ég tók lestina heim um morguninn eftir að hafa grátið aðeins meira niðri við sjó.

Á mánudeginum gerði ég heiðarlega tilraun til að fara í vinnuna. Þetta var jú allt bara aumingjaskapur í mér og ég þurfti bara að forgangsraða, vinna betur, vera betri… Ég komst rúmlega hálfa leið og fór svo bara að gráta úti á götu.

Ég var óvinnufær heima í nokkra mánuði, þunglyndur, kvíðinn og agnarsmár.

Þegar ég lít til baka finnst mér farsakennt hvað ég lét þetta ganga yfir mig lengi. Hvernig mér tókst að normalísera það að þurfa stundum að loka að mér til að fara ekki að gráta undan álagi á skrifstofunni. Ég yfirgaf vinnustaðinn á endanum, eftir nokkurra mánaða veikindaleyfi og mitt í endurhæfingunni, þegar mér var ljóst að það átti bara að hækka undir mér hitann smám saman þar til ég væri kominn í sömu sturlunina og hafði brotið mig í spað.

Það var hrikalegt að bæta atvinnuleysi ofan á andlega vanheilsu en ég leit ekki svo á að ég ætti annarra kosta völ.

Eftir 6 mánaða viðkomu í öðru skólastjórnunarstarfi hef ég áttað mig á að ég vil ekki vinna við svoleiðis. Eða… ég get það allavega ekki lengur því ég er nú svo viðkvæmur fyrir kröfum að það setur mig alveg út af laginu. Svo finnst mér líka hundleiðinlegt að sitja inni á skrifstofu og ekki í miðjum barnahópi.

Nú er ég aftur á gólfinu og uni mér vel. Ég treysti mér ekki til að fara að kenna því ég er hreinlega ekki lengur bógur í það. En ég eyði dögunum í að stússa í tölvumálum fyrir eðlilegan fjölda af fólki og með mátulegan tíma til þess milli þess sem ég vinn með krökkum á frístundavistun.

Kulnun er andstygglileg. Hún læðist upp að þér, dulbýr sig til dæmis sem „bara stress“ eða „smá lægð“ og áður en þú veist af ertu í sjálfheldu. Það er erfitt að bera kennsl á hana því hún hefur svo margar birtingarmyndir. Fyrir sumum er hún andleg uppgjöf, fyrir öðrum síþreyta eða jafnvel kvíðaköst og þunglyndi. Hvernig sem hún birtist þá er hún raunveruleg og verðskuldar athygli.

Fyrir tveim árum síðan áttaði ég mig ekki á því hvað var að koma fyrir mig fyrr en það var of seint. Ég reyndi að þrauka, sannfærði mig um að ég þyrfti bara að vera duglegri, betri starfskraftur, betri manneskja… Núna reyni ég að tína upp brotin af sjálfum mér og vinn í að setja sjálfan mig í fyrsta sæti, jafnvel þegar það gengur gegn sannfæringu minni.

Kulnun er ekki merki um veikleika. Hún er áminning um að við erum öll bara mennsk og getum ekki gefið endalaust án þess að huga að sjálfum okkur í leiðinni. Tölum um kulnun. Normalíserum það að tala um andleg veikindi, vegna þess að því betur sem við skiljum þau því betur getum við hlúð að okkur sjálfum og okkar nánustu.

Nokkrir góðir dagar með gervigreindinni

Eitthvað hefur verið skrifað um gervigreindarþjarka eins og ChatGPT að undanförnu. Umræðan hefur verið allskonar og hefur að stóru leyti snúist um svindlmöguleika nemenda og hættuna á að einhver störf verði útlæg.

Ég nenni ekki að tala um svoleiðis.

Gervigreindin er algjörlega frábært verkfæri á svo margan hátt og þessi færsla – og eflaust fleiri í kjölfarið – varpa kannski ljósi á það. Ég ákvað að skrifa þetta því enn eru svo margir sem hafa ekki prófað gervigreindarþjarka og fá jafnvel bara upplýsingar úr æsilegum fréttaflutningi. Þetta er ein svakalegasta tækniframför síðari tíma og á sama tíma ein sú aðgengilegasta. ChatGPT er ekki eini þjarkurinn, heldur er núna hægt að tala við Bard frá Google eða Bing frá Microsoft auk þess sem ógrynni af vefsíðum og öppum bjóða nú allskyns gervigreindarþjónustu. Þetta er bókstaflega örfáa smelli í burtu og ef þú hefur ekki þegar prófað þetta þá vona ég að þú gerir það eftir lesturinn.

Ég er búinn að leika mér að gervigreindinni í nokkra mánuði og hef ofið hana inn í ýmsa þætti daglegs lífs. Ég er með ChatGPT í símanum og tölvunni svo ég geti gripið í það þegar þarf.

Úti í búð

Konan mín sér yfirleitt um að versla í matinn. Henni finnst það skemmtilegra en mér, en aðalástæðan er líklega sú að ég er hálfan daginn í búðinni þegar mér er hleypt þangað. Ég veit ekkert hvar hlutirnir eru og þvælist fram og til baka um búðina í handahófskenndri leit og enda á að safna 10 þúsund skrefum þvert á alla skynsemi.
Um daginn var komið að búðarferð hjá mér og ég horfði sveittur á listann sem ég hafði skrifað og velti fyrir mér hvort ég yrði hreinlega eftir í búðinni við lokun. Þá greip ég í þjarkinn og bað hann að flokka listann minn eftir því hvar í búðinni ég gæti fundið allt.


Í atvinnuleit

Glöggir lesendur sjá líklega að ég er staddur í útlöndum. Ég bý í Svíþjóð og er um þessar mundir að leita mér að vinnu. Það væri vægast sagt lýjandi að skrifa hvert sænska bréfið á fætur öðru þar sem ég útskýri hvers vegna ég er rétti maðurinn í starfið. Í staðinn skrifa ég nokkrar línur til að láta ChatGPT vita hvers vegna vinnan vekur áhuga minn og svo lími ég inn ferilskrána mína og textann úr atvinnuauglýsingunni. ChatGPT skilar texta þar sem reynslu minni og færni er stillt upp gagnvart því sem vinnuveitandinn leitar eftir samkvæmt auglýsingunni.

Svo er ég auðvitað búinn að uppfæra hjá mér LinkedIn með textum úr þjarkinum auk þess að láta hann orða fyrir mig færslu sem ég vildi skrifa en hafði ekki tíma til, svo ég mataði hann á hugmyndunum og hann sá um rest.

Facebook-auglýsingar

Ég sel stundum hluti á Facebook marketplace og þá gríp ég í ChatGPT. Skrifa vörumerki og vörunúmer, upphæðina sem ég vil og hvernig afhendingin fer fram. ChatGPT beitir þá textanum á þann hátt sem hæfir Facebook-sölu, skellir inn nokkrum tjáknum og ekkert er eftir nema að bæta við mynd.

Eins og sést á myndinni bætti þjarkurinn við allskonar upplýsingum sem ég bað ekki um en voru samt við hæfi. Ég hef alltaf möguleikann á að svara til að biðja um endurbætta útgáfu og bæta við eða draga úr.


Og meira til!

ChatGPT hjálpaði mér að finna út úr því hvað var að bílnum þegar drapst á honum um daginn. Ég spurði hvað gæti verið að, þjarkurinn bað mig á móti að athuga nokkra hluti til að hjálpa við bilanagreininguna, og svo kom tillaga sem reyndist rétt.

Um daginn tók ég upp bók sem ég var hálfnaður með og hafði ekki opnað í marga mánuði. Ég las nokkrar blaðsíður , lýsti þeim fyrir þjarkinum og hann sagði mér hvað var búið að gerast í sögunni fram að þeim tímapunkti.

Einhver ráðningarsíða bað mig að “pitcha” mér í 140 stafabilum eða minna. Þá límdi ég ferilskrána inn í þjarkinn og hann græjaði það.

Þjarkurinn hefur gefið mér endalaust af hugmyndum til að búa til kennsluefni, lagt til kokteilauppskriftir útfrá því sem ég á í skápnum og samið fyrir mig falska íslenska málshætti til að rugla í Svíunum.

Möguleikarnir eru endlausir! Og nú, þegar Microsoft hefur keypt ChatGPT og spyrt því saman við leitarvélina Bing, þá bara fjölgar þeim. Hér í Lundi er til dæmis bæjarhátíð um næstu helgi og ég sagði Bing hvaða áhugamál ég hefði og að ég ætlaði á téða hátíð. Bing fann upplýsingarar á netinu og skilaði af sér klæðskerasniðnum ábendingum.

Og við erum bara rétt að byrja.

Borgar sig Bordershop?

Tveir menn hlaðnir bjór á þilfari skips

Rétt rúma 230 kílómetra héðan (með bíl og ferju) er Puttgarden Border Shop í Þýskalandi. Þangað streyma ótal Svíar ár hvert til að nýta sér dúndurverð á áfengi og ýmsum heimilisvörum. Aðallega áfengi, samt… Ferðin er nokkuð auðveld, gegnum Danmörku og niður að Rödby þar sem maður tekur ferju yfir og kemur beint í stærstu landamæraverslun Evrópu

Með hækkandi bensínverði og veikri krónu fór ég að velta fyrir mér hvort það borgaði sig ekki örugglega að fara þegar ferðakostnaðurinn – með brúartollum og ferjumiðum – er tekinn með. Eins og gerist stundum fór ég á yfirsnúning í pælingunum og úr varð Google-skjal sem hægt er að fylla með allskyns upplýsingum og sjá svart á hvítu hve mikið þarf að kaupa til að ferðin borgi sig. Þetta varð eiginlega of gott til að deila því ekki með heiminum svo nú getur þú eignast þinn eigin áfengiskaupatöflureikni.


Smelltu hér til að opna

Einhverjum reitum fylgja skýringar og þá er lítinn þríhyrningur í horninu sem þú setur músina yfir til að opna. Með tenglinum fyrir ofan getur þú opnað skjalið og leikið þér í því, en ef þig langar í eigið eintak til að plana stórinnkaupin þá er það líka í boði.


Smelltu hér til að sækja afrit

Góða skemmtun og góða ferð! Ef þú hefur spurningar varðandi skjalið þá finnurðu mig á Facebook.

Flutningur til Lundar – skriffinnskan

Nú nálgast flutningurinn til Svíþjóðar og þá er tekur við svolítil skriffinnska. Í þessari færslu fer ég yfir fyrstu skrefin og geri ráð fyrir að þú sért að flytja hingað í eitt ár eða meira. Ef þú hyggst stoppa styttra en það áttu t.d. ekki að skrá þig inn í landið.

Flutningur á lögheimili

Ef þú ert íslenskur ríkisborgari geturðu skráð lögheimili þitt í landinu án þess að þurfa að sækja fyrst um landvistarleyfi. Þegar þú kemur til Lundar ætti eitt af fyrstu verkum þínum að fara í Skatteverket til að skrá flutning á lögheimili. Það sem þú þarft að hafa með þér er:

  • Vegabréfið (ökuskírteini nægir ekki)
  • Hjúskaparstöðuvottorð (C-116). Ef þú ert í hjónabandi þegar þú flytur skaltu í staðinn taka með þér hjónavígsluvottorð (C-113). Hvort tveggja pantarðu hjá Þjóðskrá.
  • Ef þú hefur börn meðferðis tekurðu með þér fæðingarvottorð (C-110) fyrir hvert og eitt. Þetta pantarðu hjá Þjóðskrá. Athugaðu að ef þið eruð ógift við komuna til Svíþjóðar skráist forræði eingöngu á móðurina. Faðirinn þarf að sækja sérstaklega um forræðið.
  • Til að skrá þig í sænska tryggingakerfið hefurðu samband við Försäkringskassan og það er auðsótt í Lundi því þau deila móttöku með Skatteverket. Þegar ég flutti á sínum tíma þurftum við að framvísa eyðublaði E-104 til staðfestingar á að við værum tryggð á Íslandi. Ég held að rútínan sé breytt núna en ég þekki hana ekki nógu nákvæmlega til að segja frá henni.

Skatteverket er til húsa á Stora Södergatan 45 í Lundi og það er mikilvægt að þið mætið öll saman ef þú ert að flytja með fjölskyldunni. Að lokinni heimsókn verður ykkur úthlutað kennitölum og það tekur 6-8 vikur samkvæmt Skatteverket. Þó hef ég heyrt af styttri afhendingartíma. Til að flýta fyrir ferlinu mæli ég með að þú smellir hér og skráir upplýsingar um þig.

Smelltu hér til að lesa meira um ferlið hjá Skatteverket. 

ID-kort

Þegar þú hefur fengið kennitöluna geturðu sótt um ID-kort. Kortið geturðu notað til að auðkenna þig t.d. þegar þú sækir póst eða ferð til læknis en þú getur ekki notað það til að staðfesta ríkisfang, t.d. við ferðir yfir Eyrarsundið.Allir í fjölskyldunni sem hafa náð 13 ára aldri geta fengið ID-kort og ferlið er eftirfarandi:

  1. Áður en þú sækir um kortið greiðiru 400 króna bókunargjald. Smelltu hér til að fá upplýsingar um reikningsnúmer. Settu sænska kennitölu þess sem þú greiðir fyrir sem skýringu.
  2. Bókaðu tíma hjá Skatteverket. Það er ekki hægt að sækja um ID-kort í Lundi svo þú þarft að bóka tíma hjá Skatteverket í Malmö (eða öðrum stað sem hentar þér til að bæði sækja um og sækja kortið þegar það er tilbúið).
  3. Mættu á tilsettum tíma og hafðu með þér vegabréf til að auðkenna þig og staðfestingu á að þú hafir greitt bókunargjaldið.
  4. Um tveim vikum síðar færðu tilkynningu um að kortið sé tilbúið til afhendingar.

Smelltu hér til að lesa meira um ID-kort.

Bankareikningur

Með ID-kort og kennitölu í hönd geturðu stofnað bankareikning. Í Lundi eru til dæmis SEB, Sparbanken Skåne, Nordea og Handelsbanken. Allir geta eflaust sagt þér sínar ástæður fyrir því að þeirra banki er bestur en skynsamlegast er að kynna sér þá alla og taka ákvörðun sem hentar þér.

Seinna fjalla ég um fleiri skemmtileg skriffinnskuævintýri, atvinnuleit og sitthvað fleira en hér læt ég staðar numið í bili.

Flutningur til Lundar

Reglulega auglýsa væntanlegir háskólanemendur örvæntingarfullir eftir húsnæði hér í Lundi og þá er ekki úr vegi að fara yfir nokkur góð ráð fyrir leitina. Rétt er að horfast í augu við að þetta er drulluerfitt en alls ekki vonlaust! Þúsundir nemenda eru að leita að húsnæði samtímis og þá gildir að hafa allar klær úti. 

Fyrsta mál á dagskrá er að skrá þig í röð hjá AF Bostader. Sem nýnemi (novisch) geturðu tekið þátt í húsnæðislottóinu og þá skiptir máli að fylgja ferlinu 100% og ekki sækja um áður en opnað er fyrir umsóknir.

Samhliða því að leita hjá AF bostader ættirðu að skella þér út á frjálsa markaðinn. Nemendafélögin í Lundi reka vefsíðu, BoPoolen.se, þar sem leigjendur og leigusalar geta sett auglýst sjálfa sig og íbúðir til leigu. Það kostar ekkert að skrá sig eða birta auglýsingu. Blocket, sem er stór auglýsingasíða hér í Svíþjóð, býður upp á húsnæðisauglýsingar en til að geta svarað skilaboðum á síðunni þarf að gefa upp sænskt símanúmer, og slíkt fær maður núorðið aðeins ef maður á sænska kennitölu. Svo er það auðvitað Facebook með síður eins og þessar:

Samkeppnin er mikil svo ég mæli með því að þú búir til auglýsingu fyrir þig jafnframt því sem þú flettir auglýsingum annarra. Birtu mynd af þér til að fanga athygli og segðu frá þér sem persónu en líka hvernig þú fjármagnar dvölina og hverju þú ert að leita að. Mundu að fyrir hverja íbúð sem þú sækir um eru 150 aðrir sem senda póst.

Framboðið á almenna leigumarkaðnum er aðallega íbúðir og svo herbergi sem skiptast annars vegar í herbergi í deildu húsnæði með öðrum nemendum (korridorrum) og herbergi inni á heimili (inneboende). Með herbergjunum fylgir yfirleitt aðgangur að eldhúsi, baðherbergi og einhverjum deildum rýmum.

Vertu vakandi fyrir svindli

Það er því miður rosalega mikið um svik og pretti á leigumarkaðnum. Fyrir ykkur sem sækið um frá útlöndum snýst svindlið um að láta ykkur greiða fyrirfram fyrir íbúð út á samning sem reynist svo vera falskur. Það er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart auglýsingum sem innihalda ekki myndir frá húsnæðinu eða ef sá/sú sem birtir auglýsinguna er ekki skráð(ur) á síðuna ratsit.se. Á þeirri síðu er hægt að fletta upp svo að segja öllum í Svíþjóð.
Fáðu heimilisfangið og biddu um myndsamtal þar sem þú færð að skoða íbúðina. Biddu um að sjá útsýnið og flettu svo húsnæðinu upp á Google Maps og gáðu hvort allt stemmir.
Best væri að borga ekkert fyrirfram en staðan er sú að margir leigusalar vilja fá fyrirframgreiðslu til að festa íbúðina með góðum leigjanda sem hættir þá ekki við ef eitthvað betra býðst. Ef þú borgar eitthvað fyrirfram, gerðu það þá ekki gegnum greiðslusíður og aldrei án þess að hafa undirritað samning við leigusalann. Biddu um IBAN/SWIFT númerið hjá viðkomandi og flettu upp SWIFT-númerinu til að vera viss um að það sé í sænskum banka. Þegar þið gerið samninginn skaltu passa að kennitala viðkomandi sé á honum (og staðfesta persónuupplýsingarnar sem þú færð gegnum ratsit.is) og ef þú ert í einhverjum vafa er ekkert að því að biðja um að sjá nafnskírteini viðkomandi til staðfestingar.

Leigufélög

Ef þú ert að flytja út með fjölskylduna þá viltu kannski hafa meira öryggi og rými en býðst með herbergi hjá eftirlaunaþega eða á stúdentagangi. Þú getur eflaust fundið eitthvað á síðunum fyrir ofan og þú skalt ekki sleppa því að gera þá auglýsingu um ykkur fjölskylduna. Þar fyrir utan skaltu skrá þig hjá leigufélögunum sem eru starfrækt í Lundi:

Ég veit að fólk hefur ágætis reynslu af að fylgja umsókn til Heimstaden eftir með tölvupósti. Þau eru á yfirborðinu með lista en ég veit til þess að þau hafa handvalið úr röðinni og hafa góða reynslu af að leigja Íslendingum. Jakri AB á húsnæði í Jakriborg, sem er sjarmerandi húsaþyrping í gömlum stíl rétt fyrir utan Lund. Þar er enginn röð og maður sækir um hverja íbúð sérstaklega með bréfi til fyrirtækisins.
Ég þekki ekki til AB Hörnstenen eða Paulssons öðruvísi en að hafa fundið félögin gegnum netleit en það sakar varla að skrá sig þar. Ef beðið er um kennitölu skaltu snúa við fyrstu sex tölunum svo það sé ár-mánuður-dagur og bæta svo við fjórum valfrjálsum tölum eða stöfum. Þú getur svo útskýrt í athugasemd hvernig liggur í öllusaman.
 
Ég skrifa eflaust meira þegar mér dettur fleiri góð ráð í hug en þetta dugar í bili. Gangi þér vel!

Fókus

Fjórir og hálfur mánuður að baki í Svíþjóð. Næstum fimm mánuðir síðan ég seldi húsið, bílinn og búslóðina og flutti til Svíþjóðar til að læra í háskólanum í Lundi. Verð bráðum kominn með tvær háskólagráður af fimm.

Það hefur ekki verið sérlega erfitt að aðlagast lífinu hér. Ég er reyndar enn að aðlagast því að vera ekki stöðugt að greiða reikninga. Öðru hverju læðist að mér sá grunur að ég hljóti að vera að gleyma einhverju. Ég borga leiguna, 150 kall á mánuði fyrir 130 fermetra, frístundavistun fyrir börnin og … já. Það er allt. Frístundavistunina fæ ég rúmlega greidda til baka með barnabótum um hver mánaðarmót þannig að það telst varla með.

Að hluta er ég líka að aðlagast því að vera farinn úr því að eiga hús og í að leigja íbúð. Það er nokkuð notalegt. Splæsti þrjátíuþúsundkalli í tryggingu fyrir árið og síðan ekki söguna meir. Þegar ég drekk morgunkaffið á svölunum sé ég fólkið sem starfar fyrir húseignarfélagið vappa hér um og sópa planið, klippa trén eða safna haustlaufum. Það lak meðfram þéttingu á ofni hjá mér í gær og áður en ég vissi af var náungi kominn og farinn, búinn að redd’essu.

En alltaf læðist að mér sá grunur að ég ætti að vera borga meira. Kannski er það líka vegna þess að ég á ekki lengur bíl. Hér eru hjólastígar um allt þannig að ég splæsi bara öðru hverju í strætó eða lest. Það tók mig fyrstu 2 mánuðina að spreða í jafnvirði bensíntanks.

Að fá debetkort í hendurnar og horfa ekki fram á að borga fyrir hvert skipti sem ég renni því var jafn flippuð upplifun fyrir mig og þegar ég fór fyrst eftir pylsubrauðum út í búð og sá að ég átti ekki bara að kaupa Myllubrauð og fokka mér. Ég gat keypt heilkorna, fjölkorna, saffran, stór, lítil, dökk, ljós, með sesamfræjum… Og frá mörgum framleiðendum. Þetta á sem betur fer ekki bara við pylsubrauð. Ég sé ekki eftir einum einasta meter sem ég þarf að feta mig eftir risavöxnum mjólkurkælinum til að velja tegundina, framleiðandann og upprunann sem ég er til í hverju sinni.

Þetta er alveg ágætt.

Og allt gefur þetta manni aðra sýn á tilveruna. Ég hef fengið að fjarlægjast verksmiðjuvæðingu heimabæjar míns, skattpíninguna þar í boði Sjálfstæðissukkara fyrri ára og allar áhyggjur af því hvort ríkisstjórnin ætli að fara með mig beina leið til bandsjóðandi helvítis fljótlega eða seinna. Svíþjóð á sín vandamál en ég er enn um sinn alsæll í fáfræði minni og hef enga þörf fyrir að skrifa um eða æsa mig yfir nokkru yfirleitt.

Tímabilið sem varð til þess að ég opnaði Facebook-síðu sem snerist um að spyrna fótum gegn meðvirkni fólks í bænum mínum er núna að baki og ég er búinn að loka henni. Ég er hættur að ítreka margra mánaða gamla tölvupósta til núverandi bæjarstjórnar um milljónapartýsukk og stóriðjugreiða bara til að ergja mig á því í bloggfærslum.

Maður verður bara pirraður á svona vitleysu og það er allt of fallegt haustið hérna í Svíþjóð til að eyða tíma í annað en að njóta þess.

Alvarlegar ásakanir – til hvers?

Árið 2010 lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram eftirfarandi tillögu sem meirihlutinn felldi:

Samfylkingin í Reykjanesbæ leggur til að bæjarstjórn Reykjanesbæjar skipi nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjanesbæjar.

Nefndin fái fullan aðgang að skjalasafni Reykjanesbæjar og öllum gögnum er varða stjórnsýslu bæjarins. Þá leiti hún upplýsinga hjá aðilum utan stjórnkerfisins eftir þörfum.

Nefndin leggi fram starfsáætlun fyrir 01.nóvember 2010, þar sem fram komi m.a. umfang og áherslur í starfinu, auk áætlaðs kostnaðar.

Lokaskýrsla nefndarinnar liggi svo fyrir eigi síðar en 01.apríl 2011. Bæjarráð ákveður þóknun nefndarinnar.

Aðalverkefni nefndarinnar verði:
– Að kanna stjórnsýslu bæjarins og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.
– Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.
– Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu bæjarins.
– Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við bæinn og einstaka embættismenn eða bæjarfulltrúa.
– Að kanna hvort einstakir embættismenn, bæjarfulltrúar eða frambjóðendur til bæjarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við bæinn.
– Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu bæjarins eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.

Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson

Nú er nýr meirihluti með aðkomu Samfylkingar búinn að sitja í 1 ár og mér þætti alveg tilvalið að þetta yrði tekið upp aftur. Hafi Friðjón og hans fólk talið tilefni til þess á sínum tíma ætti það enn að vera gilt og full ástæða til að fylgja því eftir.

Bæjarstjórnin hefur reynt að haga málum þannig að ota ekki fingrum og Kjartan Már sló upphafstóninn í því þegar hann núllaði út allar ásakanir kosningabaráttunnar um fjármálaóreiðu með því að segja til lítils að horfa í baksýnisspegilinn í einu af sínum fyrstu viðtölum í embætti. Svo var blásið til sóknar sem virðist einhversstaðar hafa beygt ofan í skurð vegna þess að bæjarstjóri hefur ekki uppfært upplýsingapistlana þar um á vefsíðu bæjarins í hálft ár ef frá er talinn einn pistill í júlí um skattsvikara bæjarins.

Ég birti þessa mynd á síðunni minni fyrir síðustu kosningar vegna þess að allir gerðu grín að Sjálfstæðismönnum fyrir að vilja ekki tala um fortíðina.
Það reyndist smitandi.

Fólk taldi sig vera að kjósa baráttufólk fyrir opinni stjórnsýslu og heiðarlegum vinnubrögðum en þegar fólk færist um stól í fundarherberginu á Tjarnargötu 12 er eins og hugsjónirnar fylgi ekki með.

Fólkið sem reytti hár sitt eitt sinn yfir bókhaldsprettum, klúðri og valdníðslu embættismanna endurréði þá svo og talar um að ekki megi dvelja við fortíðina. Það boðar ekki gott.

Það er sjálfsagt að dvelja ekki svo mikið við baksýnisspegilinn að maður komist ekki áfram en núverandi meirihluti ber ábyrgð gagnvart bæjarbúum öllum að opna stjórnsýsluna upp á gátt og sýna það sem við ekki máttum sjá á sínum tíma svo við getum vitað hvernig bænum okkar var stjórnað og hvers vegna bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar komu fram með svona alvarlegar ásakanir árið 2010. Það er eitt og nógu slæmt að bæjarfulltrúum minnihlutans hafi ekki tekist að varpa ljósi á hvernig bæjarfélaginu okkar var stjórnað á sínum tíma en djöfullegt er það þegar þetta sama fólk hættir við um leið og það fær til þess umboð.

Var þetta bara leikrit til að ná völdum?

Annað prestskjör í Reykjanesbæ

Upp er komin sérstök staða í leit Keflavíkurkirkju að presti til starfa við kirkjuna. Eins og Víkurfréttir greindu frá á dögunum gengur fólk nú í hús til að safna undirskriftum til að fara fram á prestskosningu, en heimild til slíks er í starfsreglum Þjóðkirkjunnar og sérstaklega tilgreind í auglýsingu um starfið. Það var einmitt í samræmi við þær reglur sem stuðningsfólk sr. Erlu fór fram á kosningu sem á endanum tryggði henni embættið en nú er uppi ágreiningur um hvort söfnun á rétt á sér.

Það eru nokkur göt í umræðunni sem ég hef verið að reyna að fylla upp í, sjálfum mér til skemmtunar og vonandi einhverjum til upplýsingar.

Ráðningarferlið – fyrsta lota

Þannig er að auglýst var eftir presti í febrúar á þessu ári á sama tíma og auglýst var eftir sóknarpresti en af einhverjum ástæðum dróst ráðningarferli prests langt umfram heimildir og á endanum fór svo að valnefnd, skipuð fulltrúum sóknarnefndar og fulltrúum Biskups, mælti einróma með einum umsækjenda í starfið. Hann skulum nú við kalla „umsækjanda A“ til einföldunar.

Í auglýsingunni, sem birt var í febrúar, er sérstaklega tekið fram að við valið verði rík áhersla lögð á kunnáttu og reynslu af starfi með börnum og ungmennum. Með hliðsjón af því hafnaði Biskup ráðningunni og vísaði í 10. grein starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Þar stendur m.a. eftirfarandi:

„Við matið skal valnefnd leggja til grundvallar guðfræðimenntun, starfsreynslu, starfsferil svo og hæfni til boðunar og sálgæslu og samskiptahæfni umsækjanda og hvernig umsækjendur uppfylli sérstök skilyrði eða sérstaka hæfni ef slíkt er áskilið í auglýsingu.“

Biskup mat það svo að umsækjandi A uppfyllti skilyrðin ekki betur en aðrir umsækjendur sem höfðu nær allir talsvert meiri reynslu en hann af barna- og unglingastarfi og hafnaði því ráðningunni enda væri hún brot á starfsreglum.

Auk ofangreindra annmarka stendur umsækjandi A nokkrum öðrum umsækjendum aftar hvað varðar bæði menntun og starfsreynslu þannig að það er ljóst að hann uppfyllir ekki skilyrðin sem starfsreglur valnefndar tilgreina. Þetta virðist nefndin hafa verið meðvituð um enda byggir hún rökstuðning valsins nær einvörðungu á huglægu mati ef frá er talin fullyrðing um hve vel umsækjandinn uppfylli skilyrði um barnastarf, sem er beinlínis röng. Í skjölum nefndarinnar er ennfremur vísað í matsblöð og stigagjöf en þau hefur enginn umsækjenda fengið að sjá.

Enginn valinn – aftur auglýst

13. grein starfsreglna um val og veitingu prestsembætta gefur Biskupi – auk valds til að hafna tilnefndum aðila – svigrúm til að velja hæfari umsækjanda, framlengja umsóknarfrest eða auglýsa embættið að nýju. Ekkert varð úr fyrsta og öðrum kosti svo nauðsynlegt var að auglýsa embættið að nýju.

Í nýju auglýsingunni var tekin út krafan um reynslu af barnastarfi, sem er kannski skiljanlegt þar sem reynd manneskja á því sviði er nú sóknarprestur og nú megi einblína á aðra kosti.

Ég hef rætt við ýmsa aðila tengda þessu máli á undanförnum dögum og sú skoðun er útbreidd að ávallt hafi staðið til að ráða umsækjanda A, jafnvel áður en umsóknarferlið hófst. Sú fullyrðing ein og sér hljómar eins og úr lausu lofti gripin en þrennt gefur henni byr undir vængi. Í fyrsta lagi, þó léttvægt sé, að í nýju auglýsingunni hafi verið fjarlægð ein hindrun sem er á að umsækjandi A fái starfið. Í annan stað að enginn umsækjenda sem ég hef rætt við kannast við að haft hafi verið samband við meðmælendur í umsóknarferlinu og í þriðja lagi það að þegar valnefndin kom saman til að ræða við umsækjendur var skv. fundargerð einum nefndarmanni umhugað að vita í upphafi fundar hvort umsækjendur gætu farið fram á rökstuðning ákvörðunarinnar.

Of langt seilst? Ég veit það ekki. Ég get ekki – sama hvað ég pæli í þessu yfir uppvaski, á klóinu, undir sæng eða úti að ganga – fengið það út hvers vegna það sé umhugsunarefni í eðlilegu og löglegu ferli hvort umsækjendur fái að sjá rökstuðning stjórnsýsluákvörðunar.

En nóg um það.

Krókur á móti bragði?

Embættið var semsagt auglýst að nýju og umsóknarfrestur rennur út 7. ágúst. Í millitíðinni fór hópur fólks í Reykjanesbæ af stað til að safna undirskriftum þeirra sem vilja að fram fari prestskosning. Víkurfréttir afgreiddu þá söfnun í slúðurfréttastíl og birtu sögusagnir innhringjenda sem sögðu að fólk úr Njarðvíkursókn væri að með blekkingum að safna nöfnum og að sóknarpresturinn í Njarðvík stæði örugglega að þessari söfnun. Því var svo auðvitað bætt við að dóttir prestsins hefði verið meðal umsækjenda.

Víkurfréttir höfðu hvorki samband við sóknarprestinn í Njarðvík né dóttur hans áður en greinin var birt og höfðu heldur ekki fyrir því að hafa uppi á ábyrgðarmanni söfnunarinnar, Leifi A. Ísakssyni. Svo skemmtilega vill til að hann er með lögheimili í póstnúmeri 230, er fyrrum sóknarnefndarmeðlimur og meðhjálpari í Keflavíkurkirkju og er ekkert að fela ábyrgð sína á söfnuninni, enda hefur hann birt tvær greinar í Víkurfréttum til að tala máli þeirra sem fara fram á kosningu. Leifur er meðal þeirra fjölmörgu sem ég hef rætt við og hann þvertekur fyrir að krafa um kosningu sé til að greiða götu Maríu í embættið.

Segir hann satt?

Skiptir það máli?

Kirkja fólksins

„Keflavíkurkirkja hefur frá upphafi verið kirkja fólksins. Sjálfboðaliðar hafa þar gegnt mikilvægu hlutverki og í raun verið í burðarhlutverki. Fer vel á því að fólkið taki með beinum hætti þátt í því að velja sér prest. Það er mögulegt samkvæmt reglum um val á presti en þá þarf minnst þriðjungur atkvæðisbærra sóknarbarna að setja nafn sitt á undirskriftarlista þar sem farið er fram á almennar kosningar. […] Við hvetjum Keflvíkinga til að sameina krafta sína og fara fram á að almennar prestkosningar fari fram í sókninni. Þá getum við sjálf valið okkur manneskju, óbundin af þeim reglum sem gilda um val á opinberum embættismönnum. Kirkja fólksins á að fá að velja sér þann prest sem þar á að þjóna.“

Svo hljóðaði hluti greinar sem birtist í Víkurfréttum í febrúar á þessu ári. Þá skrifaði fólk sem vildi kosningu um sóknarprest svo hægt væri að koma að þeirri manneskju sem meirihluta sóknarbarna þóknaðist og það var ljóst frá upphafi. Reyndir guðfræðingar og prestar drógu sig til hlés og Erla var ein í framboði. Ef kosningar fara aftur fram er deginum ljósara að utanbæjarfólk á við ramman reip að draga gegn heimakonunni Maríu kjósi hún að bjóða sig fram. En ef hún sigrar, hefur þá ekki vilji fólksins sigrað að nýju?

Sami hópur og barðist fyrir kosningu í febrúar berst nú gegn henni því vilji fólksins skiptir í þetta skiptið minna máli en vilji 10 manna valnefndar og auðvitað sóknarprestsins sem skv. reglum hefur umsagnarrétt en ekki atkvæðisrétt. Það er vissulega sjónarmið í málinu að sóknarpresturinn og lykilfólk sóknarinnar eigi að geta handvalið í embættið því á litlum vinnustað skiptir gott samspil miklu máli.

En það skiptir líka máli að leika eftir reglum og það var ekki gert í þessu tilfelli. Niðurstaða valnefndar var á skjön við þá reglugerð sem hún starfar eftir og Biskup lék eftir reglunum þegar hún hafnaði henni.

Þeir sem berjast gegn kosningunni segja að margir mjög hæfir guðfræðingar og prestar hafi lýst áhuga á embættinu nú þegar það verður auglýst að nýju en vilji ekki taka þátt verði kosið um embættið, en slíkt muni veikja þjónustu Keflavíkurkirkju. Það gleymist að nefna að það voru líka margir mjög hæfir guðfræðingar sem sóttu um þessa stöðu í fyrsta umsóknarferli en gengið var framhjá þeim. Ef tilgangur þessa alls er að velja mjög hæfan guðfræðing í starfið hefði mátt komast hjá þessu veseni með því að velja einhvern hinna löglegu umsækjenda í fyrstu tilraun. Einhverra hluta vegna var það ekki gert.

Þegar allt ofangreint er tekið saman lítur út fyrir að í Keflavík sé í uppsiglingu barátta tveggja fylkinga. Hvað svo sem skrifað er um lýðræðishugsjón og fagmennsku þá stendur það eftir að sigur hvorrar fylkingar leiðir væntanlega aðeins til einnar mögulegrar niðurstöðu. Það held ég að báðir aðilar viti þó hvorugur viðurkenni það.

En það er bara mín skoðun.

Saga úr stjórnsýslunni

Eftirfarandi setti ég upphaflega sem komment á Facebook-þráð en finnst það eiginlega verðskulda sína eigin bloggfærslu, enda merkileg saga um stjórnsýslu og sérkennilega tímaröð atburða: „Eins og einhverjir muna bárust fréttir af byggingu nýs gagnavers á Patterson svæðinu í maí á síðasta ári. Í byrjun júní hafði ég samband við bæjarskrifstofuna og spurði hvort ég mætti sækja eintak af byggingarleyfinu fyrir gagnaverið. Hjá USK (umhverfis- og skipulagssviði) var mér ýmist sagt að ég mætti ekki fá það (sem stangast á við upplýsingalög) eða þá að sá sem ég talaði við (ritari USK) hefði ekki aðgang að skjölunum. Allir sem ég talaði við stömuðu einhverja afsökun fyrir því að ég gæti ekki fengið afrit af byggingarleyfinu. Seinna sama dag fékk ég símtal frá manni sem gegnir ábyrgðarstöðu fyrir einn af flokkum nýja meirihlutans og hann bað mig að gramsa ekki í þessu því það gæti valdið skaða sem væri óþarfur. 6. júní sendi ég svo formlega fyrirspurn og þrjár vikur liðu án þess að Umhverfis- og skipulagssvið svaraði erindi mínu en þá fékk ég loks bréf um að ekki hefði verið gengið frá gatnagerðargjaldi og því lægi byggingarleyfi ekki fyrir. Ég spurði hvort það væri ekki verið að byggja þarna uppfrá og hvort byggingarleyfi væri ekki forsenda þess. Ekkert svar barst. Ég ítrekaði viku seinna og fékk ekkert svar. Þá var kominn júlí. 13. nóvember sendi ég aftur ítrekun, rúmum fjórum mánuðum síðar. Ekkert mætti mér nema þögnin.

„Ef við höfum alveg hljótt fer hann kannski og lætur okkur vera.“

8. desember, hálfu ári eftir fyrstu beiðni, sendi ég enn eitt bréfið og minnti á skyldu USK skv. upplýsingalögum. Þann dag barst mér loks afrit af byggingarleyfi sem gefið var út 14. júlí, 2 mánuðum eftir að framkvæmdir hófust.“ Þar sem formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar var í umræðunni bað ég hann að segja skoðun sína á vinnubrögðunum og bíð þolinmóður svars(Þessi tengill virkar ekki lengur því ég var gerður útlægur úr facebook-umræðuhópi íbúa Reykjanesbæjar vegna óþægilegra spurninga).

Laun núverandi toppa Reykjanesbæjar

Eftir allar þær breytingar sem orðið hafa á rekstri Reykjanesbæjar er ekki úr vegi að líta stuttlega yfir þær greiðslur sem topparnir hjá Reykjanesbæ þiggja fyrir sín störf.

Nýi bæjarstjórinn okkar fær greiddar 1.340.000 krónur á mánuði, sem er um 70 þúsund krónum meira en forsætisráðherra landsins. Ofan á það bætast auðvitað aksturspeningar skv. akstursdagbók og greiðslur fyrir fundarsetu hjá eftirlaunasjóði RNB, en það eru litlar 73.000 krónur fyrir hvern fund.

Nýju sviðsstjórarnir okkar fá 900 þúsund krónur á mánuði að viðbættum akstri skv. akstursdagbók en hafnarstjóri er öllu lægri, með um 750 þúsund krónur á mánuði að viðbættum akstri.

Forseti bæjarstjórnar fær 119.705 krónur á mánuði að viðbættum 63.002 krónum fyrir hvern bæjarstjórnarfund sem eru um 245 þúsund krónur miðað við 2 fundi á mánuði.

Formaður bæjarráðs fær 179.557 krónur á mánuði að viðbættum 25.200 krónum fyrir hvern fund sem eru um 280 þúsund krónur á mánuði miðað við 4 fundi á mánuði.