Fyrir skammstöfunarkrakka og aðra

Einhvern daginn fyrir ekki svo löngu langaði mig að gera eitthvað til að minna krakkana í skólanum mínum á að ekkert heldur aftur af þeim. Ég vildi sýna krökkunum sem eru með ADHD eða aðrar skammstafanir að þær skilgreina ekki framtíðina og að það sem við leyfum ekki að draga okkur niður getur jafnvel orðið til þess að lyfta okkur upp.

…svo ég bjó þetta til og hengdi á vegginn fyrir utan kennslustofuna mína.

Þið megið deila þessu og nota að vild á hvaða formi sem er.

Draugasaga

Fyrir mörgum árum sat ég í bíl úti við Garðskagavita. Nýbúinn að fá bílprófið og fór því allra minna leiða á bílnum hvort sem þess þurfti eða ekki. Að þessu sinni sat ég og át hamborgara kl. 2 að nóttu og naut þess að horfa út í myrkrið sem huldi hafið handan við varnargarðinn. Ég hafði heyrt sögur um draugagang við Garðskagavita en hafði ekki áhyggjur af draugum frekar en tröllum og drekum. Eins og til að storka örlögunum slökkti ég ljósin á bílnum og leyfði myrkrinu að umlykja bílinn og sat þar inni í daufri skímu frá ljósunum á mælaborðinu. Mér leið vel, frjáls eins og fuglinn með nýja bílprófið, og hallaði sætinu aftur og setti fæturna upp.

Ég hafði ekki setið lengi svona þegar ég heyrði, og fann, hvernig bankað var í bílstjórahurðina. Bank… bank… bank… þrjú högg heyrðust áður og hættu um leið og ég rauk upp úr sætinu og kveikti ljósin á bílnum. Ég þorði ekki að líta út um gluggann og bakkaði bílnum frekar til að sjá hvað þetta gæti verið.

Ekkert.

Það var ekkert að sjá. Enginn var þarna nema ég, hafið og myrkrið. Það hlaut eitthvað að hafa fokið á dyrnar. Það var eina mögulega skýringin. Ég neitaði að láta undan órökréttum ótta við eitthvað yfirnáttúrulegt svo ég ók bílnum aftur á sinn stað og hélt áfram að maula borgarann minn. Brátt náði ég aftur að slaka á og hallaði mér aftur með góða tónlist í útvarpinu. Ég slökkti ekki ljósin til öryggis. Ég var ekki fyrr búinn að koma mér aftur fyrir en það heyrðist afur, og ég fann það jafn greinilega og áður. Bank… bank… bank…

Þetta gat ég ekki skrifað á sjávarrokið. Ég rauk upp með andfælum og skellti bílnum í bakkgír og spólaði heilan hring á planinu til að sjá hvað eða hver væri að fela sig í myrkrinu og hrekkja mig með svona óþverralegum hætti. Ég sá ekkert.

„ÞAÐ HANGIR Á HURÐINNI!“ gargaði ég innra með mér og gaf allt í botn til að reyna að hrista af mér þessa óværu. Ég keyrði í loftköstum aftur inn í Garð og þorði ekki að líta í baksýnisspeglana fyrr en ég var kominn inn í bæinn og örugga birtuna af ljósastaurunum.

Þá sá ég það. Þegar ég hallaði mér aftur og setti fæturna upp hafði ég lagt annað hnéð að hnappinum sem stýrði hliðarspeglunum á bílnum. Spegillinn bílstjóramegin færðist þar til hann komst ekki lengra og byrjaði þá að hökta.

Þá heyrðist bank… bank… bank…

Desembersamantekt

Ég áttaði mig á því áðan að ég hef ekki skrifað stafkrók um hvernig söfnunin í desember gekk svo það best að koma því frá.

Í einu orði sagt stórkostlega!

En í fleiri orðum, þá safnaðist svipuð upphæð og í fyrra eða um hálf milljón. Ég keypti litlar skógjafir fyrir hátt í hundrað börn og notaði restina (sem var þorri upphæðarinnar) í að kaupa jólagjafir sem fóru í úthlutun hjá Velferðarsjóði þar sem um 150 börn eru á framfæri þeirra sem þiggja þar aðstoð. Þökk sé frábærum viðtökum ykkar og góðri aðstoð fyrirtækja sem ég verslaði við gat ég keypt margar og góðar gjafir sem gerðu jólagjafaúthlutun Velferðarsjóðs einstaka á landsvísu.

Gjafirnar ykkar fóru víðar, en um eitt hundrað manns sóttu Vinajól Hjálpræðishersins og fjölmargar gjafir fóru til skjólstæðinga þeirra. Auk þess heimsótti ég Vinasetrið, sem er stuðningsþjónusta og helgarvistun fyrir börn, og sendi öll börnin heim með jólagjafir.

Þúsund þakkir til ykkar allra sem tókuð þátt með fjárframlögum, gjöfum og útréttum hjálparhöndum. Takk fyrir að hugsa til allra þeirra sem glíma við erfiðleika og fyrir að létta undir með þeim. Þó jólin séu tíminn sem svona lagað nær hámarki á hverju ári skulum við muna að hafa augun opin allt árið um kring fyrir fólki sem þarf hjálparhönd og vera tilbúin að aðstoða. Brosum líka meira hvert til annars og verum óspör á hrós.

Takk!

Af brennuvörgum og umræðuslagsíðu

Það kom loks að því að ég skrifaði eitthvað og auðvitað er það til að þenja mig. Mig langar að þenja mig svolítið yfir yfirvofandi launalækkunum í Ráðhúsi Reykjanesbæjar eða öllu heldur umfjölluninni um þær.

Fyrr í kvöld birtist frétt á DV um að óánægjueldar logi í Ráðhúsi Reykjanesbæjar vegna þeirra launaskerðinga sem starfsmenn horfa fram á. Í greininni er sérstaklega tekið fram að fólk sé óánægt með að bæjarfulltrúar taki aðeins á sig 5% launaskerðingu meðan hinn almenni launþegi í Ráðhúsinu horfi fram á 40-50% skerðingu.

Við skulum því byrja á að skoða staðreyndir. Hið fyrsta er að ef uppsögn á ógreiddri yfirvinnu og ónýttum ökutækjastyrk felur í sér 50% skerðingu launa er eitthvað gríðarmikið að í launamálum Reykjanesbæjar. Ég myndi gjarnan vilja sjá launaseðil þess sem sér fram á slíka lækkun. En því er auðvitað haldið utan við umræðuna að skerðingin á aðeins við um óunna yfirvinnu og greiðslur fyrir kílómetra sem ekki eru eknir. Fólk mun áfram fá greitt fyrir þá vinnu sem það innir af hendi og þá kílómetra sem það ekur vegna vinnu.

Ég hef fullan skilning á því að það sé slæmt högg að hafa tamið sér lífsstíl í samræmi við tekjur sem munu jafnvel skerðast en þeir starfsmenn sem nú hafa hæst um þetta láta eins og þetta hafi aldrei gerst áður. Þegar kreppti að í rekstri Reykjanesbæjar fyrir 6 árum var yfirvinna kennara skert meðal annars með því að láta eldri nemendur fá eyður frekar en forfallakennslu. Við misstum enga bitlinga til að hækka hjá okkur þau laun sem bærinn greiðir okkur að algjöru lágmarki en máttum bara ekki lengur vinna við það að þjónusta skjólstæðinga okkar. Ég minnist þess ekki að hafa orðið var við að eldar réttlætiskenndarinnar loguðu þá.

Það hafa margar stofnanir þurft að skera við nögl á undanförnum árum en þetta hefur kannski alltaf farið framhjá bæjarskrifstofunni. Okkar stjórnendur funduðu á sínum skrifstofum meðan framkvæmdastjórar Reykjanesbæjar funduðu á dýrum hótelum. Á meðan skólarnir reyndu að spara með því að klippa niður notaðan pappír í minnisblöð fékk bæjarskrifstofan sín minnisblöð sérprentuð. Forstöðumenn stofnana bæjarins hafa þurft að hagræða í rekstri með því t.d. að stytta opnunartíma leikskóla, karpa um þrifasamninga og láta sér lynda arfaslakan og illa endurnýjaðan tækjakost en í Ráðhúsinu eru sett upp raflásakerfi og splæst í fjúkandi dýrar hátískuljósakrónur.

Ég hef nákvæmlega ekkert á móti því góða fólki sem vinnur á gólfinu í Ráðhúsinu en hef hins vegar mikið að athuga við það hvernig haldið hefur verið á spöðunum í rekstri þess.

Þetta er auðvitað drullufúlt, jafnt fyrir þau sem alla þá starfsmenn sem hafa tekið á sig skerðingar á undanförnum árum. En þetta er afleiðingin af því að hafa lifað við lygar fyrri meirihluta undanfarin kjörtímabil. Það er búið að pretta almenning í bænum árum saman með talnabrellum og glansmyndum en nú hefur komist upp um lygina. Og afleiðingarnar eru hrikalegar. Það er samt ekki þeim að kenna sem sitja uppi með tiltektina. Það er ekki starfsmönnum bæjarskrifstofunnar um að kenna frekar en hinum almenna borgara en öll sitjum við uppi með að taka þátt í tiltektinni.

Næstum öll. Þeir eru nefninlega sumir sem gera hvað þeir geta til að spilla samtakamættinum og sá fræjum tortryggni með lýðskrumi og misvísandi staðhæfingum.

Til dæmis í umræðunni um laun kjörinna fulltrúa. Kristinn Jakobsson lagði til á bæjarráðsfundi að föst laun bæjarráðsmanna yrðu felld niður og að eingöngu yrði greitt fyrir fundarsetu. Hugmyndin hljómar kannski ágætlega á yfirborðinu en hún er ekkert annað en lýðskrum. Fyrir það fyrsta leggur Kristinn til niðurfellingu á einu laununum sem hann fær ekki, enda er hann áheyrnarfulltrúi í bæjarráði. Hann hefði getað lagt til að greiðslur fyrir fundarsetu yrðu lækkaðar eða felldar niður eða jafnvel laun bæjarfulltrúa. En hann gerði það ekki, enda hefði hann þá skert eigin kjör.

Þar fyrir utan er með eindæmum vitlaust að ætlast til þess að bæjarráðsmenn fái aðeins greitt fyrir fundarsetu því þeir inna af hendi gríðarmikla vinnu um þessar mundir við að bjarga bæjarfélaginu okkar frá þeirri kafsiglingu sem fyrri meirihluti stóð fyrir. Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að fólk geri slíkt launalaust. Og greiðsla fyrir fundarsetu fer til þess sem mætir hverju sinni, óháð því hvort það er aðalfulltrúi, varafulltrúi eða áheyrnarfulltrúi, en vinnuframlag þeirra tveggja síðastnefndu er í engu samræmi við aðalfulltrúa.

Og svo eru það sjálfstæðismenn og klappstýrurnar þeirra sem eru víða. Grímulaust ganga bæjarfulltrúar flokksins fram í gagnrýni sem er eins og í þeirra fyrri valdatíð, í engu samhengi við raunveruleikann sem blasir við hugsandi fólki. Og framkvæmdastjórar hjá bænum opinberuðu sig margir sem helbláa stuðningsmenn fyrrum valdahóps með greinaskrifum, áróðursfundum í boði bæjarsjóðs og allskyns fegrunaraðgerðum rétt fyrir kosningar. Þetta fólk, sem vann gegn núverandi ráðamönnum í liðnum kosningum, stjórnar nú á bæjarskrifstofunni þar sem allt logar í óánægju. Það má alveg velta því fyrir sér hverjir bera olíu á eldinn sem væri jafnvel ekki svo mikill ef aðgerðirnar fengju að ganga í gegn áður en brjálæðiskastið byrjar. Eða ef fólk reyndi að skoða þær í stærra samhengi.

Þeir sem hatast út í núverandi meirihluta halda því hátt á lofti að bæjarfulltrúar þurfi bara að taka á sig skerðingu um 5% á föstum greiðslum meðan fótunum er kippt undan öllum öðrum. Með þetta eins og annað þarf að skoða hlutina í samhengi. Bæjarfulltrúar fá 67 þúsund krónur í fastar greiðslur og 37 þúsund fyrir fundarsetu. Fundir eru tvisvar í mánuði þannig að ef fastafulltrúi mætir á báða fundi fær hann 137 þúsund krónur á mánuði. Þeir vinna ötullega í þágu bæjarfélagsins á allskonar stundum og mörgum stöðum en fá ekki fasta yfirvinnu til að hífa tekjurnar upp og ekki heldur ökutækjastyrk. Með 5% skerðingunni verða mánaðarlaunin 133.850 krónur. Er það í alvörunni eitthvað til að æsa sig yfir í samanburði við allt að hundruða kílómetra ónýtta ökutækjastyrki og tuga tíma óunna yfirvinnu sem verið er að sneiða af öðrum?

Ég segi það aftur að ég skil gremjuna í fólki. En staðan sem blasir við býður ekki upp á aðra kosti. Núverandi minnihluti hefur ekkert að bjóða nema „hvað ef“ hagfræði sem er nákvæmlega ástæðan fyrir því að bærinn er núna í sögulega skelfilegri stöðu sem við þurfum öll að greiða fyrir.

Ef við ætlum að taka brjálæðiskast eigum við að beina því að ástæðum þess að við erum nú í þeirri stöðu að það þrengir að hjá öllum. Ekki út í þá sem eru að reyna að laga þetta bæjarfélag.

Sítrónukjaftæði

Á vefsíðunni Spegill.is er grein eftir Heiðu Þórðar sem fjallar um áhrifamátt sítrónusafa og matarsóda gegn krabbameini. Í greininni, sem hefur fengið hátt í 10 þúsund deilingar, er sagt að fjölmargar rannsóknir hafi sýnt fram á „eiginleika sítrónunnar gegn krabbameini“ og að blanda af sítrónusafa og matarsóda sé öflugri en lyfjameðverð.

Vá! Það er aldeilis…

Ég velti því auðvitað fyrir mér hvers vegna öll sjúkrahús bjóði þá sjúklingum ekki frekar upp á að bíta í sítrónur frekar en að gangast undir þungbærar lyfjameðferðir, sem kosta auk þess talsvert meira en poki af sítrónum úr Bónus. Í leit að svörum opnaði ég tenglana sem vísað var í sem heimildir neðst í greininni.

Einn tengillinn opnaði síðuna Godlike Productions sem er spjallborð fyrir fólk sem skiptist á sögum af fljúgandi furðuhlutum, draugum og ægilegum samsærum hinna ráðandi afla. Þar á spjallþræði um hvernig heilun og fínstilling orkustöðvanna getur læknað krabbamein kom nafnlaus notandi með óstaðfesta sögu um hvernig pabbi hans læknaði sjálfan sig af krabbameini fyrir 50 árum með því að éta sítrónur.
Hmm, ókei. Allir vita að reynslusögur eru ekki marktæk vísindi, hvað þá á spjallborði þar sem allir virðast setja upp álhatta áður en þeir byrja að pikka. Greinarhöfundur hlýtur að vera að grínast eitthvað.

Best að skoða hinar heimildir greinarhöfundar. Næsti áfangastaður er vefsíðan Regenerative Nutrition og á henni er grein eftir Marc Sircus sem titlar sig OMD, en Google segir mér að það þýði að hann sé doktor í nálastungum og austurlenskum fræðum. Greinin byggir á litlu öðru en eigin vangaveltum og tilvitnunum í Dr. Simoncini, ítalskan lækni sem var fyrir 10 árum sviptur réttindum og sakfelldur fyrir svik og afglöp sem leiddu til dauðsfalls. Sá læknir hefur verið einn helsti talsmaður þess að krabbamein sé í raun sveppasýking sem megi lækna með sítrónum, matarsóda, sírópi og hvaðeina.

Staðreyndin er sú að ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að krabbamein sé sveppasýking eins og hann og fylgjendur matarsódaátsins halda fram og ennfremur eru engar rannsóknir til sem sýna fram á að matarsódi hafi nokkuð að segja í baráttunni við krabbamein. Vitleysan í þessum náunga og þeim sem éta hana upp eftir honum hefur orðið til þess að t.d. American Cancer Society þurfa að halda úti grein á vefsvæði sínu til að bera þvæluna til baka.

En rúsínan í pylsuendanum er þriðji og síðasti tengillinn sem Heiða Þórðar vísar á. Hann fer inn á vefsíðuna Cancer Research UK, og þar sem tengillinn vísaði á forsíðuna þurfti ég að leita á síðunni að greinum sem nefna sítrónur og matarsóda og þá kom upp þessi heimild sem bendir sterklega til þess að þó Heiða sé skrifandi sé hún mögulega ekki læs:

„Don’t believe the hype – 10 persistent cancer myths debunked“ þar sem segir meðal annars að „Internetið er drekkhlaðið myndböndum og persónulegum reynslusögum um náttúrulegar kraftaverkalækningar við krabbameinum. En stórkostlegar fullyrðingar krefjast afgerandi sannana og YouTube myndbönd og Facebook færslur eru ekki vísindaleg gögn til jafns við ritrýndar, vel gerðar rannsóknir.“

Já, þú last rétt. Máli sínu til stuðnings vísar Heiða Þórðar á vefsíðu sem segir að fólk eigi ekki að trúa bullgreinum eins og þeirri sem hún var að skrifa.
Eigum við ekki bara að taka þeim ráðum og hætta að dreifa þessu kjaftæði?

Grauturinn hans Árna

Á fundi sem Árni Sigfússon átti með stjórnendum Skólamatar fyrir skömmu tók bæjarstjóri þá ákvörðun að bjóða grunnskólabörnum upp í Reykjanesbæ upp á frían graut í morgunmat. Öðlingurinn Árni tók þessa ákvörðun án nokkurs sýnilegs samráðs við bæjarráð eða fræðsluráð og að því er virðist án þess að nokkur umræða hafi farið fram um málið innan stjórnsýslunnar.
Það er alveg magnað eitt og sér að Árni upplifi sig sem slíkan einvald að hann afgreiðir svona lagað eins og hendi sé veifað en tímasetningin er ekki síður áhugaverð.
Í einhverju örvæntingarfálmi til að bregðast við umfjöllun (m.a. hér) um hve aftarlega svöng börn virðast lenda í forgangsröð bæjarins notar Árni stöðu sína til að næla í sig skrautfjöður á kostnað bæjarsjóðs rétt fyrir kosningar.
Áætlað er að þetta byrji næsta miðvikudag og ég reikna fastlega með að því fylgi fagurgali í Víkurfréttum með mynd af Árna.

Ég skúbba hér með þeirri frétt úr höndum þeirra.

Þessi ákvörðun er tekin korter í kosningar þrátt fyrir að lengi hafi verið umræða um þörfina á að gera þetta en hvorki hefur fundist vilji né peningar. Fyrr en nú.

Eins og með margt annað hjá Sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ virðist áherslan vera fyrst og fremst á að skapa gott fréttatækifæri. Það sést á því að þetta kosningatrikk er kokkað upp í svo miklum flýti að enginn tími er til að skipuleggja dreifinguna svo gert er ráð fyrir að fara þá auðveldu leið að útdeila grautnum eingöngu til unglinga í fyrstu frímínútum dagsins kl. 9:30 þegar þeir mega vera inni en yngri börnin ekki. En hvað gerir maður ekki fyrir góðan fréttaflutning?

Allir stjórnmálamenn elska myndir af sér vera góðir við börn því þær vekja svo ljúf hugrenningatengsl hjá kjósendum og þó ég sé að skúbba þessari frétt frá vinum Árna get ég ekki með góðri samvisku haft af honum tækifærið. Því læt ég fylgja með þessa teikningu sem ég tel að fangi nokkuð vel væntingar þeirra:


Leikur að tölum um mat

Í Reykjanesbæ býr fjöldi barna við þann nöturlega veruleika að foreldrar þeirra eiga ekki peninga fyrir mat og nýlega kom umræða upp í Facebook grúbbu um börn sem vísað er frá afgreiðslu Skólamatar vegna skulda foreldra þeirra. Þar kom réttilega fram að slík tilvik heyra til undantekninga og að reynt sé að koma til móts við það fólk sem hefur ekki efni á mataráskrift en í umræðunni virðist enginn vera sammála um hvaðan sú aðstoð kemur.

Í þeirri viðleitni minni undanfarna mánuði að létta börnum efnalítilla foreldra á Suðurnesjum tilveruna með jólagjöfum og nú síðast páskaeggjum leitaði ég til Velferðarsjóðs Suðurnesja um aðstoð við dreifinguna. Ég valdi þau til aðstoðar vegna þess að þar er skilvirk og góð umsýsla sem tryggir að aðstoðinni er útdeilt til þeirra sem mest þurfa á henni að halda. Ég komst að því að auk þess að aðstoða fólk með ýmsar nauðsynjar greiðir Velferðarsjóður skólamáltíðir fyrir tugi barna og aðstoðar við æfingagjöld og ýmislegt fleira sem gerir okkar verst stöddu börnum kleift að eiga sem eðlilegasta barnæsku miðað við jafnaldra þeirra. Sjóðurinn er rekinn að mestu leyti fyrir peninga Keflavíkurkirkju en einnig styðja fyrirtæki og einstaklingar á svæðinu við bakið á þeim. Hér er ágætt að staldra við og rifja upp 31. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um jöfn tækifæri barna til slíkrar iðju:

Reykjanesbær ákvað nú í ár að kominn væri tími til að styðja við starf sjóðsins og til stendur að reiða fram fram eina milljón króna til reksturs sjóðsins, sem stendur ekki sérlega vel í ljósi þess mikla fátæktarvanda sem við glímum við. Mér finnst þessi stuðningur Reykjensbæjar sjálfsagður og löngu tímabær enda hefur það komið fram í umræðunni að þegar fólk leitar til bæjarins eftir aðstoð við matarkaup er vísað á Velferðarsjóðinn og því eðlilegt að bærinn taki þátt í kostnaðinum.

En þegar ég skoðaði umræðuna um þessi mál og tölur tengdar henni fór ég að rissa upp tölur og tengja þær saman og hér er sitthvað sem ég komst að:

Áskrift að hádegismat í grunnskólum Reykjanesbæjar kostar kr. 298,- fyrir hverja máltíð sem gerir um 6 þúsund krónur á mánuði.

Velferðarsjóður greiðir um 300 þúsund krónur á mánuði fyrir mataráskriftir þeirra sem hafa ekki efni á því. Þetta þýðir að einnar milljónar framlag Reykjanesbæjar dekkar um þrjá og hálfan mánuð. Mataráskriftirnar eru þó eins og áður sagði bara hluti af útgjöldum sjóðsins.

En yfir í annað.

Tvisvar sinnum á ári fer Árni Sigfússon með lykilstarfsfólk (þá sem hafa „-stjóri“ í starfsheitinu og nokkra til) á tveggja daga vinnufund á hótel úti á landi. Árið 2013 fór hópurinn annars vegar á Hótel Geysi og greiddi fyrir það kr. 385.000,- og hins vegar á Frost og funa og greiddu fyrir það kr. 579.000,-. Kostnaður við þessar tvær vinnuferðir er samanlagður 964 þúsund krónur.

Ef við ímyndum okkur að Árni og hans fólk hefði gert sér að góðu að vinna í fundarsölum nýja ráðhússins, hvað hefði þá mátt gera fyrir þessa peninga? Til dæmis hefðum við getað gefið 800 svöngum grunnskólabörnum ókeypis máltíð í þá fjóra daga sem þau funduðu á hótelunum. Ef við horfum samt eilítið praktískar á málið og reynum að nýta skynsamlega þessar þrjú þúsund tvö hundruð þrjátíu og fimm máltíðir sem hægt væri að kaupa fyrir fundarferðirnar, þá hefðu 18 fátæk börn getað fengið ókeypis skólamáltíðir í heilt ár.

…en hvað er það á við að geta hresst sig við í hótellauginni eftir erfiða fundartörn?

Páskaeggin sem ég fékk Velferðarsjóði til dreifingar voru eitt hundrað talsins og þau gengu öll út. Það er staðreynd að tólf þúsund börn á Íslandi búa við fátækt, svo ég hygg það ekki glæfralegt mat að ætla að eitt hundrað börn í Reykjanesbæ og nágrenni búi við skort.

Með þessi hundrað börn í huga er forvitnilegt að sjá hvernig Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar forgangsraða þegar kemur að því að ráðstafa peningum. Turninn sem stendur á nýja Parísartorginu kostaði 4,5 milljónir skv. samantekt framkvæmdastjóra umhverfis- og skipulagssviðs og ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvað fengist fyrir þá upphæð. Hafa ber í huga að ég er ekki að tala um kostnað við hringtorgið sjálft, sem er samgöngubót, heldur skrautfjöðrina sem nauðsynlegt þótti að setja á það.

Fyrir þá peninga gætum við gefið 84 börnum skólamat í heilt ár. Við þyrftum ekki að hafa miklar áhyggjur af þessum 16 sem upp á vantar ef Árni og hans lykilfólk sættu sig við að funda á sínum vinnustað eins og öðrum starfsmönnum bæjarins er uppálagt að gera.

Það er samt ástæðulaust að taka þennan lúxus af mikilvæga fólkinu í fílabeinsturninum ráðhúsinu svo við skulum athuga hvað við gætum t.d. gert fyrir bæjarhliðin sem hlaðin voru síðasta sumar. Þau eru liður í framtíðarsýn Reykjanesbæjar sem virðist leggja hvað ríkasta áherslu á að bærinn okkar líti vel út á yfirborðinu.

„Hvaða fátæku börn?“

Ef við bætum við þeim 23 milljónum sem Reykjanesbær greiddi vegna bæjarhliðanna gætum við ekki aðeins gefið hverju einasta af þessum hundrað börnum fríar skólamáltíðir í heilt ár. Við gætum bætt um betur og veitt þeim öllum möguleikann á menningar- og tómstundaiðkun og greitt fyrir þau einn vetur í tónlistarnámi eða íþróttaæfingum. Það besta er að þau þurfa ekki að láta sér nægja eitt ár, því peningurinn dugar fyrir æfingum og máltíðum í rúm tvö ár.

Allt er þetta þó bara draumsýn, því þessi peningur er bundinn í steypu, grjóti og munaði fyrir þá hæst launuðu í boði okkar hinna.

Erum við í alvöru fjölskylduvænt bæjarfélag?

Rithöndin kemur upp um hann

Ég datt niður á grein um daginn þar sem lýst er nýlegri rannsókn sem bendir til þess að stjórnendur með stóra undirskrift séu sjálfsdýrkendur, taki slæmar fjárhagslegar ákvarðanir og að fyrirtækjum sem lúti stjórn yfirmanna með stóra undirskrift gangi almennt verr en öðrum.

„[…]þegar ársskýrsla er með stórri undirskrift stjórnanda – mælt með kassa utan um endimörk undirskriftarinnar með tilliti til nafnlengdar – eyðir fyrirtækið almennt meira í fjárfestingarvörur, rannsóknir og greiningu og yfirtökur en jafningjar í bransanum, en skila þó verri söluhagnaði og söluaukningu á næstu þrem til sex árum.

Ennfremur fundum við samhengi við einkaleyfi. Því stærri sem undirskriftin er, því færri einkaleyfi sem bendir til skorts á nýsköpun. Þessar niðurstöður koma heim og saman við að stór undirskrift lýsir sjálfsdýrkun og sjálfselskandi stjórnendur haga sér á þann veg sem leiðir til slæmrar útkomu – til dæmis með því að yfirgnæfa samræður, hunsa gagnrýni og gera lítið úr starfsfólki.“

Dömur mínar og herrar, ég kynni undirskrift Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra: