Flutningur til Lundar – skriffinnskan

Nú nálgast flutningurinn til Svíþjóðar og þá er tekur við svolítil skriffinnska. Í þessari færslu fer ég yfir fyrstu skrefin og geri ráð fyrir að þú sért að flytja hingað í eitt ár eða meira. Ef þú hyggst stoppa styttra en það áttu t.d. ekki að skrá þig inn í landið.

Flutningur á lögheimili

Ef þú ert íslenskur ríkisborgari geturðu skráð lögheimili þitt í landinu án þess að þurfa að sækja fyrst um landvistarleyfi. Þegar þú kemur til Lundar ætti eitt af fyrstu verkum þínum að fara í Skatteverket til að skrá flutning á lögheimili. Það sem þú þarft að hafa með þér er:

  • Vegabréfið (ökuskírteini nægir ekki)
  • Hjúskaparstöðuvottorð (C-116). Ef þú ert í hjónabandi þegar þú flytur skaltu í staðinn taka með þér hjónavígsluvottorð (C-113). Hvort tveggja pantarðu hjá Þjóðskrá.
  • Ef þú hefur börn meðferðis tekurðu með þér fæðingarvottorð (C-110) fyrir hvert og eitt. Þetta pantarðu hjá Þjóðskrá. Athugaðu að ef þið eruð ógift við komuna til Svíþjóðar skráist forræði eingöngu á móðurina. Faðirinn þarf að sækja sérstaklega um forræðið.
  • Til að skrá þig í sænska tryggingakerfið hefurðu samband við Försäkringskassan og það er auðsótt í Lundi því þau deila móttöku með Skatteverket. Þegar ég flutti á sínum tíma þurftum við að framvísa eyðublaði E-104 til staðfestingar á að við værum tryggð á Íslandi. Ég held að rútínan sé breytt núna en ég þekki hana ekki nógu nákvæmlega til að segja frá henni.

Skatteverket er til húsa á Stora Södergatan 45 í Lundi og það er mikilvægt að þið mætið öll saman ef þú ert að flytja með fjölskyldunni. Að lokinni heimsókn verður ykkur úthlutað kennitölum og það tekur 6-8 vikur samkvæmt Skatteverket. Þó hef ég heyrt af styttri afhendingartíma. Til að flýta fyrir ferlinu mæli ég með að þú smellir hér og skráir upplýsingar um þig.

Smelltu hér til að lesa meira um ferlið hjá Skatteverket. 

ID-kort

Þegar þú hefur fengið kennitöluna geturðu sótt um ID-kort. Kortið geturðu notað til að auðkenna þig t.d. þegar þú sækir póst eða ferð til læknis en þú getur ekki notað það til að staðfesta ríkisfang, t.d. við ferðir yfir Eyrarsundið.Allir í fjölskyldunni sem hafa náð 13 ára aldri geta fengið ID-kort og ferlið er eftirfarandi:

  1. Áður en þú sækir um kortið greiðiru 400 króna bókunargjald. Smelltu hér til að fá upplýsingar um reikningsnúmer. Settu sænska kennitölu þess sem þú greiðir fyrir sem skýringu.
  2. Bókaðu tíma hjá Skatteverket. Það er ekki hægt að sækja um ID-kort í Lundi svo þú þarft að bóka tíma hjá Skatteverket í Malmö (eða öðrum stað sem hentar þér til að bæði sækja um og sækja kortið þegar það er tilbúið).
  3. Mættu á tilsettum tíma og hafðu með þér vegabréf til að auðkenna þig og staðfestingu á að þú hafir greitt bókunargjaldið.
  4. Um tveim vikum síðar færðu tilkynningu um að kortið sé tilbúið til afhendingar.

Smelltu hér til að lesa meira um ID-kort.

Bankareikningur

Með ID-kort og kennitölu í hönd geturðu stofnað bankareikning. Í Lundi eru til dæmis SEB, Sparbanken Skåne, Nordea og Handelsbanken. Allir geta eflaust sagt þér sínar ástæður fyrir því að þeirra banki er bestur en skynsamlegast er að kynna sér þá alla og taka ákvörðun sem hentar þér.

Seinna fjalla ég um fleiri skemmtileg skriffinnskuævintýri, atvinnuleit og sitthvað fleira en hér læt ég staðar numið í bili.

Fókus

Fjórir og hálfur mánuður að baki í Svíþjóð. Næstum fimm mánuðir síðan ég seldi húsið, bílinn og búslóðina og flutti til Svíþjóðar til að læra í háskólanum í Lundi. Verð bráðum kominn með tvær háskólagráður af fimm.

Það hefur ekki verið sérlega erfitt að aðlagast lífinu hér. Ég er reyndar enn að aðlagast því að vera ekki stöðugt að greiða reikninga. Öðru hverju læðist að mér sá grunur að ég hljóti að vera að gleyma einhverju. Ég borga leiguna, 150 kall á mánuði fyrir 130 fermetra, frístundavistun fyrir börnin og … já. Það er allt. Frístundavistunina fæ ég rúmlega greidda til baka með barnabótum um hver mánaðarmót þannig að það telst varla með.

Að hluta er ég líka að aðlagast því að vera farinn úr því að eiga hús og í að leigja íbúð. Það er nokkuð notalegt. Splæsti þrjátíuþúsundkalli í tryggingu fyrir árið og síðan ekki söguna meir. Þegar ég drekk morgunkaffið á svölunum sé ég fólkið sem starfar fyrir húseignarfélagið vappa hér um og sópa planið, klippa trén eða safna haustlaufum. Það lak meðfram þéttingu á ofni hjá mér í gær og áður en ég vissi af var náungi kominn og farinn, búinn að redd’essu.

En alltaf læðist að mér sá grunur að ég ætti að vera borga meira. Kannski er það líka vegna þess að ég á ekki lengur bíl. Hér eru hjólastígar um allt þannig að ég splæsi bara öðru hverju í strætó eða lest. Það tók mig fyrstu 2 mánuðina að spreða í jafnvirði bensíntanks.

Að fá debetkort í hendurnar og horfa ekki fram á að borga fyrir hvert skipti sem ég renni því var jafn flippuð upplifun fyrir mig og þegar ég fór fyrst eftir pylsubrauðum út í búð og sá að ég átti ekki bara að kaupa Myllubrauð og fokka mér. Ég gat keypt heilkorna, fjölkorna, saffran, stór, lítil, dökk, ljós, með sesamfræjum… Og frá mörgum framleiðendum. Þetta á sem betur fer ekki bara við pylsubrauð. Ég sé ekki eftir einum einasta meter sem ég þarf að feta mig eftir risavöxnum mjólkurkælinum til að velja tegundina, framleiðandann og upprunann sem ég er til í hverju sinni.

Þetta er alveg ágætt.

Og allt gefur þetta manni aðra sýn á tilveruna. Ég hef fengið að fjarlægjast verksmiðjuvæðingu heimabæjar míns, skattpíninguna þar í boði Sjálfstæðissukkara fyrri ára og allar áhyggjur af því hvort ríkisstjórnin ætli að fara með mig beina leið til bandsjóðandi helvítis fljótlega eða seinna. Svíþjóð á sín vandamál en ég er enn um sinn alsæll í fáfræði minni og hef enga þörf fyrir að skrifa um eða æsa mig yfir nokkru yfirleitt.

Tímabilið sem varð til þess að ég opnaði Facebook-síðu sem snerist um að spyrna fótum gegn meðvirkni fólks í bænum mínum er núna að baki og ég er búinn að loka henni. Ég er hættur að ítreka margra mánaða gamla tölvupósta til núverandi bæjarstjórnar um milljónapartýsukk og stóriðjugreiða bara til að ergja mig á því í bloggfærslum.

Maður verður bara pirraður á svona vitleysu og það er allt of fallegt haustið hérna í Svíþjóð til að eyða tíma í annað en að njóta þess.