Alvarlegar ásakanir – til hvers?

Árið 2010 lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram eftirfarandi tillögu sem meirihlutinn felldi:

Samfylkingin í Reykjanesbæ leggur til að bæjarstjórn Reykjanesbæjar skipi nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjanesbæjar.

Nefndin fái fullan aðgang að skjalasafni Reykjanesbæjar og öllum gögnum er varða stjórnsýslu bæjarins. Þá leiti hún upplýsinga hjá aðilum utan stjórnkerfisins eftir þörfum.

Nefndin leggi fram starfsáætlun fyrir 01.nóvember 2010, þar sem fram komi m.a. umfang og áherslur í starfinu, auk áætlaðs kostnaðar.

Lokaskýrsla nefndarinnar liggi svo fyrir eigi síðar en 01.apríl 2011. Bæjarráð ákveður þóknun nefndarinnar.

Aðalverkefni nefndarinnar verði:
– Að kanna stjórnsýslu bæjarins og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.
– Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.
– Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu bæjarins.
– Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við bæinn og einstaka embættismenn eða bæjarfulltrúa.
– Að kanna hvort einstakir embættismenn, bæjarfulltrúar eða frambjóðendur til bæjarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við bæinn.
– Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu bæjarins eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.

Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson

Nú er nýr meirihluti með aðkomu Samfylkingar búinn að sitja í 1 ár og mér þætti alveg tilvalið að þetta yrði tekið upp aftur. Hafi Friðjón og hans fólk talið tilefni til þess á sínum tíma ætti það enn að vera gilt og full ástæða til að fylgja því eftir.

Bæjarstjórnin hefur reynt að haga málum þannig að ota ekki fingrum og Kjartan Már sló upphafstóninn í því þegar hann núllaði út allar ásakanir kosningabaráttunnar um fjármálaóreiðu með því að segja til lítils að horfa í baksýnisspegilinn í einu af sínum fyrstu viðtölum í embætti. Svo var blásið til sóknar sem virðist einhversstaðar hafa beygt ofan í skurð vegna þess að bæjarstjóri hefur ekki uppfært upplýsingapistlana þar um á vefsíðu bæjarins í hálft ár ef frá er talinn einn pistill í júlí um skattsvikara bæjarins.

Ég birti þessa mynd á síðunni minni fyrir síðustu kosningar vegna þess að allir gerðu grín að Sjálfstæðismönnum fyrir að vilja ekki tala um fortíðina.
Það reyndist smitandi.

Fólk taldi sig vera að kjósa baráttufólk fyrir opinni stjórnsýslu og heiðarlegum vinnubrögðum en þegar fólk færist um stól í fundarherberginu á Tjarnargötu 12 er eins og hugsjónirnar fylgi ekki með.

Fólkið sem reytti hár sitt eitt sinn yfir bókhaldsprettum, klúðri og valdníðslu embættismanna endurréði þá svo og talar um að ekki megi dvelja við fortíðina. Það boðar ekki gott.

Það er sjálfsagt að dvelja ekki svo mikið við baksýnisspegilinn að maður komist ekki áfram en núverandi meirihluti ber ábyrgð gagnvart bæjarbúum öllum að opna stjórnsýsluna upp á gátt og sýna það sem við ekki máttum sjá á sínum tíma svo við getum vitað hvernig bænum okkar var stjórnað og hvers vegna bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar komu fram með svona alvarlegar ásakanir árið 2010. Það er eitt og nógu slæmt að bæjarfulltrúum minnihlutans hafi ekki tekist að varpa ljósi á hvernig bæjarfélaginu okkar var stjórnað á sínum tíma en djöfullegt er það þegar þetta sama fólk hættir við um leið og það fær til þess umboð.

Var þetta bara leikrit til að ná völdum?

Annað prestskjör í Reykjanesbæ

Upp er komin sérstök staða í leit Keflavíkurkirkju að presti til starfa við kirkjuna. Eins og Víkurfréttir greindu frá á dögunum gengur fólk nú í hús til að safna undirskriftum til að fara fram á prestskosningu, en heimild til slíks er í starfsreglum Þjóðkirkjunnar og sérstaklega tilgreind í auglýsingu um starfið. Það var einmitt í samræmi við þær reglur sem stuðningsfólk sr. Erlu fór fram á kosningu sem á endanum tryggði henni embættið en nú er uppi ágreiningur um hvort söfnun á rétt á sér.

Það eru nokkur göt í umræðunni sem ég hef verið að reyna að fylla upp í, sjálfum mér til skemmtunar og vonandi einhverjum til upplýsingar.

Ráðningarferlið – fyrsta lota

Þannig er að auglýst var eftir presti í febrúar á þessu ári á sama tíma og auglýst var eftir sóknarpresti en af einhverjum ástæðum dróst ráðningarferli prests langt umfram heimildir og á endanum fór svo að valnefnd, skipuð fulltrúum sóknarnefndar og fulltrúum Biskups, mælti einróma með einum umsækjenda í starfið. Hann skulum nú við kalla „umsækjanda A“ til einföldunar.

Í auglýsingunni, sem birt var í febrúar, er sérstaklega tekið fram að við valið verði rík áhersla lögð á kunnáttu og reynslu af starfi með börnum og ungmennum. Með hliðsjón af því hafnaði Biskup ráðningunni og vísaði í 10. grein starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Þar stendur m.a. eftirfarandi:

„Við matið skal valnefnd leggja til grundvallar guðfræðimenntun, starfsreynslu, starfsferil svo og hæfni til boðunar og sálgæslu og samskiptahæfni umsækjanda og hvernig umsækjendur uppfylli sérstök skilyrði eða sérstaka hæfni ef slíkt er áskilið í auglýsingu.“

Biskup mat það svo að umsækjandi A uppfyllti skilyrðin ekki betur en aðrir umsækjendur sem höfðu nær allir talsvert meiri reynslu en hann af barna- og unglingastarfi og hafnaði því ráðningunni enda væri hún brot á starfsreglum.

Auk ofangreindra annmarka stendur umsækjandi A nokkrum öðrum umsækjendum aftar hvað varðar bæði menntun og starfsreynslu þannig að það er ljóst að hann uppfyllir ekki skilyrðin sem starfsreglur valnefndar tilgreina. Þetta virðist nefndin hafa verið meðvituð um enda byggir hún rökstuðning valsins nær einvörðungu á huglægu mati ef frá er talin fullyrðing um hve vel umsækjandinn uppfylli skilyrði um barnastarf, sem er beinlínis röng. Í skjölum nefndarinnar er ennfremur vísað í matsblöð og stigagjöf en þau hefur enginn umsækjenda fengið að sjá.

Enginn valinn – aftur auglýst

13. grein starfsreglna um val og veitingu prestsembætta gefur Biskupi – auk valds til að hafna tilnefndum aðila – svigrúm til að velja hæfari umsækjanda, framlengja umsóknarfrest eða auglýsa embættið að nýju. Ekkert varð úr fyrsta og öðrum kosti svo nauðsynlegt var að auglýsa embættið að nýju.

Í nýju auglýsingunni var tekin út krafan um reynslu af barnastarfi, sem er kannski skiljanlegt þar sem reynd manneskja á því sviði er nú sóknarprestur og nú megi einblína á aðra kosti.

Ég hef rætt við ýmsa aðila tengda þessu máli á undanförnum dögum og sú skoðun er útbreidd að ávallt hafi staðið til að ráða umsækjanda A, jafnvel áður en umsóknarferlið hófst. Sú fullyrðing ein og sér hljómar eins og úr lausu lofti gripin en þrennt gefur henni byr undir vængi. Í fyrsta lagi, þó léttvægt sé, að í nýju auglýsingunni hafi verið fjarlægð ein hindrun sem er á að umsækjandi A fái starfið. Í annan stað að enginn umsækjenda sem ég hef rætt við kannast við að haft hafi verið samband við meðmælendur í umsóknarferlinu og í þriðja lagi það að þegar valnefndin kom saman til að ræða við umsækjendur var skv. fundargerð einum nefndarmanni umhugað að vita í upphafi fundar hvort umsækjendur gætu farið fram á rökstuðning ákvörðunarinnar.

Of langt seilst? Ég veit það ekki. Ég get ekki – sama hvað ég pæli í þessu yfir uppvaski, á klóinu, undir sæng eða úti að ganga – fengið það út hvers vegna það sé umhugsunarefni í eðlilegu og löglegu ferli hvort umsækjendur fái að sjá rökstuðning stjórnsýsluákvörðunar.

En nóg um það.

Krókur á móti bragði?

Embættið var semsagt auglýst að nýju og umsóknarfrestur rennur út 7. ágúst. Í millitíðinni fór hópur fólks í Reykjanesbæ af stað til að safna undirskriftum þeirra sem vilja að fram fari prestskosning. Víkurfréttir afgreiddu þá söfnun í slúðurfréttastíl og birtu sögusagnir innhringjenda sem sögðu að fólk úr Njarðvíkursókn væri að með blekkingum að safna nöfnum og að sóknarpresturinn í Njarðvík stæði örugglega að þessari söfnun. Því var svo auðvitað bætt við að dóttir prestsins hefði verið meðal umsækjenda.

Víkurfréttir höfðu hvorki samband við sóknarprestinn í Njarðvík né dóttur hans áður en greinin var birt og höfðu heldur ekki fyrir því að hafa uppi á ábyrgðarmanni söfnunarinnar, Leifi A. Ísakssyni. Svo skemmtilega vill til að hann er með lögheimili í póstnúmeri 230, er fyrrum sóknarnefndarmeðlimur og meðhjálpari í Keflavíkurkirkju og er ekkert að fela ábyrgð sína á söfnuninni, enda hefur hann birt tvær greinar í Víkurfréttum til að tala máli þeirra sem fara fram á kosningu. Leifur er meðal þeirra fjölmörgu sem ég hef rætt við og hann þvertekur fyrir að krafa um kosningu sé til að greiða götu Maríu í embættið.

Segir hann satt?

Skiptir það máli?

Kirkja fólksins

„Keflavíkurkirkja hefur frá upphafi verið kirkja fólksins. Sjálfboðaliðar hafa þar gegnt mikilvægu hlutverki og í raun verið í burðarhlutverki. Fer vel á því að fólkið taki með beinum hætti þátt í því að velja sér prest. Það er mögulegt samkvæmt reglum um val á presti en þá þarf minnst þriðjungur atkvæðisbærra sóknarbarna að setja nafn sitt á undirskriftarlista þar sem farið er fram á almennar kosningar. […] Við hvetjum Keflvíkinga til að sameina krafta sína og fara fram á að almennar prestkosningar fari fram í sókninni. Þá getum við sjálf valið okkur manneskju, óbundin af þeim reglum sem gilda um val á opinberum embættismönnum. Kirkja fólksins á að fá að velja sér þann prest sem þar á að þjóna.“

Svo hljóðaði hluti greinar sem birtist í Víkurfréttum í febrúar á þessu ári. Þá skrifaði fólk sem vildi kosningu um sóknarprest svo hægt væri að koma að þeirri manneskju sem meirihluta sóknarbarna þóknaðist og það var ljóst frá upphafi. Reyndir guðfræðingar og prestar drógu sig til hlés og Erla var ein í framboði. Ef kosningar fara aftur fram er deginum ljósara að utanbæjarfólk á við ramman reip að draga gegn heimakonunni Maríu kjósi hún að bjóða sig fram. En ef hún sigrar, hefur þá ekki vilji fólksins sigrað að nýju?

Sami hópur og barðist fyrir kosningu í febrúar berst nú gegn henni því vilji fólksins skiptir í þetta skiptið minna máli en vilji 10 manna valnefndar og auðvitað sóknarprestsins sem skv. reglum hefur umsagnarrétt en ekki atkvæðisrétt. Það er vissulega sjónarmið í málinu að sóknarpresturinn og lykilfólk sóknarinnar eigi að geta handvalið í embættið því á litlum vinnustað skiptir gott samspil miklu máli.

En það skiptir líka máli að leika eftir reglum og það var ekki gert í þessu tilfelli. Niðurstaða valnefndar var á skjön við þá reglugerð sem hún starfar eftir og Biskup lék eftir reglunum þegar hún hafnaði henni.

Þeir sem berjast gegn kosningunni segja að margir mjög hæfir guðfræðingar og prestar hafi lýst áhuga á embættinu nú þegar það verður auglýst að nýju en vilji ekki taka þátt verði kosið um embættið, en slíkt muni veikja þjónustu Keflavíkurkirkju. Það gleymist að nefna að það voru líka margir mjög hæfir guðfræðingar sem sóttu um þessa stöðu í fyrsta umsóknarferli en gengið var framhjá þeim. Ef tilgangur þessa alls er að velja mjög hæfan guðfræðing í starfið hefði mátt komast hjá þessu veseni með því að velja einhvern hinna löglegu umsækjenda í fyrstu tilraun. Einhverra hluta vegna var það ekki gert.

Þegar allt ofangreint er tekið saman lítur út fyrir að í Keflavík sé í uppsiglingu barátta tveggja fylkinga. Hvað svo sem skrifað er um lýðræðishugsjón og fagmennsku þá stendur það eftir að sigur hvorrar fylkingar leiðir væntanlega aðeins til einnar mögulegrar niðurstöðu. Það held ég að báðir aðilar viti þó hvorugur viðurkenni það.

En það er bara mín skoðun.

Saga úr stjórnsýslunni

Eftirfarandi setti ég upphaflega sem komment á Facebook-þráð en finnst það eiginlega verðskulda sína eigin bloggfærslu, enda merkileg saga um stjórnsýslu og sérkennilega tímaröð atburða: „Eins og einhverjir muna bárust fréttir af byggingu nýs gagnavers á Patterson svæðinu í maí á síðasta ári. Í byrjun júní hafði ég samband við bæjarskrifstofuna og spurði hvort ég mætti sækja eintak af byggingarleyfinu fyrir gagnaverið. Hjá USK (umhverfis- og skipulagssviði) var mér ýmist sagt að ég mætti ekki fá það (sem stangast á við upplýsingalög) eða þá að sá sem ég talaði við (ritari USK) hefði ekki aðgang að skjölunum. Allir sem ég talaði við stömuðu einhverja afsökun fyrir því að ég gæti ekki fengið afrit af byggingarleyfinu. Seinna sama dag fékk ég símtal frá manni sem gegnir ábyrgðarstöðu fyrir einn af flokkum nýja meirihlutans og hann bað mig að gramsa ekki í þessu því það gæti valdið skaða sem væri óþarfur. 6. júní sendi ég svo formlega fyrirspurn og þrjár vikur liðu án þess að Umhverfis- og skipulagssvið svaraði erindi mínu en þá fékk ég loks bréf um að ekki hefði verið gengið frá gatnagerðargjaldi og því lægi byggingarleyfi ekki fyrir. Ég spurði hvort það væri ekki verið að byggja þarna uppfrá og hvort byggingarleyfi væri ekki forsenda þess. Ekkert svar barst. Ég ítrekaði viku seinna og fékk ekkert svar. Þá var kominn júlí. 13. nóvember sendi ég aftur ítrekun, rúmum fjórum mánuðum síðar. Ekkert mætti mér nema þögnin.

„Ef við höfum alveg hljótt fer hann kannski og lætur okkur vera.“

8. desember, hálfu ári eftir fyrstu beiðni, sendi ég enn eitt bréfið og minnti á skyldu USK skv. upplýsingalögum. Þann dag barst mér loks afrit af byggingarleyfi sem gefið var út 14. júlí, 2 mánuðum eftir að framkvæmdir hófust.“ Þar sem formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar var í umræðunni bað ég hann að segja skoðun sína á vinnubrögðunum og bíð þolinmóður svars(Þessi tengill virkar ekki lengur því ég var gerður útlægur úr facebook-umræðuhópi íbúa Reykjanesbæjar vegna óþægilegra spurninga).

Laun núverandi toppa Reykjanesbæjar

Eftir allar þær breytingar sem orðið hafa á rekstri Reykjanesbæjar er ekki úr vegi að líta stuttlega yfir þær greiðslur sem topparnir hjá Reykjanesbæ þiggja fyrir sín störf.

Nýi bæjarstjórinn okkar fær greiddar 1.340.000 krónur á mánuði, sem er um 70 þúsund krónum meira en forsætisráðherra landsins. Ofan á það bætast auðvitað aksturspeningar skv. akstursdagbók og greiðslur fyrir fundarsetu hjá eftirlaunasjóði RNB, en það eru litlar 73.000 krónur fyrir hvern fund.

Nýju sviðsstjórarnir okkar fá 900 þúsund krónur á mánuði að viðbættum akstri skv. akstursdagbók en hafnarstjóri er öllu lægri, með um 750 þúsund krónur á mánuði að viðbættum akstri.

Forseti bæjarstjórnar fær 119.705 krónur á mánuði að viðbættum 63.002 krónum fyrir hvern bæjarstjórnarfund sem eru um 245 þúsund krónur miðað við 2 fundi á mánuði.

Formaður bæjarráðs fær 179.557 krónur á mánuði að viðbættum 25.200 krónum fyrir hvern fund sem eru um 280 þúsund krónur á mánuði miðað við 4 fundi á mánuði.

Af brennuvörgum og umræðuslagsíðu

Það kom loks að því að ég skrifaði eitthvað og auðvitað er það til að þenja mig. Mig langar að þenja mig svolítið yfir yfirvofandi launalækkunum í Ráðhúsi Reykjanesbæjar eða öllu heldur umfjölluninni um þær.

Fyrr í kvöld birtist frétt á DV um að óánægjueldar logi í Ráðhúsi Reykjanesbæjar vegna þeirra launaskerðinga sem starfsmenn horfa fram á. Í greininni er sérstaklega tekið fram að fólk sé óánægt með að bæjarfulltrúar taki aðeins á sig 5% launaskerðingu meðan hinn almenni launþegi í Ráðhúsinu horfi fram á 40-50% skerðingu.

Við skulum því byrja á að skoða staðreyndir. Hið fyrsta er að ef uppsögn á ógreiddri yfirvinnu og ónýttum ökutækjastyrk felur í sér 50% skerðingu launa er eitthvað gríðarmikið að í launamálum Reykjanesbæjar. Ég myndi gjarnan vilja sjá launaseðil þess sem sér fram á slíka lækkun. En því er auðvitað haldið utan við umræðuna að skerðingin á aðeins við um óunna yfirvinnu og greiðslur fyrir kílómetra sem ekki eru eknir. Fólk mun áfram fá greitt fyrir þá vinnu sem það innir af hendi og þá kílómetra sem það ekur vegna vinnu.

Ég hef fullan skilning á því að það sé slæmt högg að hafa tamið sér lífsstíl í samræmi við tekjur sem munu jafnvel skerðast en þeir starfsmenn sem nú hafa hæst um þetta láta eins og þetta hafi aldrei gerst áður. Þegar kreppti að í rekstri Reykjanesbæjar fyrir 6 árum var yfirvinna kennara skert meðal annars með því að láta eldri nemendur fá eyður frekar en forfallakennslu. Við misstum enga bitlinga til að hækka hjá okkur þau laun sem bærinn greiðir okkur að algjöru lágmarki en máttum bara ekki lengur vinna við það að þjónusta skjólstæðinga okkar. Ég minnist þess ekki að hafa orðið var við að eldar réttlætiskenndarinnar loguðu þá.

Það hafa margar stofnanir þurft að skera við nögl á undanförnum árum en þetta hefur kannski alltaf farið framhjá bæjarskrifstofunni. Okkar stjórnendur funduðu á sínum skrifstofum meðan framkvæmdastjórar Reykjanesbæjar funduðu á dýrum hótelum. Á meðan skólarnir reyndu að spara með því að klippa niður notaðan pappír í minnisblöð fékk bæjarskrifstofan sín minnisblöð sérprentuð. Forstöðumenn stofnana bæjarins hafa þurft að hagræða í rekstri með því t.d. að stytta opnunartíma leikskóla, karpa um þrifasamninga og láta sér lynda arfaslakan og illa endurnýjaðan tækjakost en í Ráðhúsinu eru sett upp raflásakerfi og splæst í fjúkandi dýrar hátískuljósakrónur.

Ég hef nákvæmlega ekkert á móti því góða fólki sem vinnur á gólfinu í Ráðhúsinu en hef hins vegar mikið að athuga við það hvernig haldið hefur verið á spöðunum í rekstri þess.

Þetta er auðvitað drullufúlt, jafnt fyrir þau sem alla þá starfsmenn sem hafa tekið á sig skerðingar á undanförnum árum. En þetta er afleiðingin af því að hafa lifað við lygar fyrri meirihluta undanfarin kjörtímabil. Það er búið að pretta almenning í bænum árum saman með talnabrellum og glansmyndum en nú hefur komist upp um lygina. Og afleiðingarnar eru hrikalegar. Það er samt ekki þeim að kenna sem sitja uppi með tiltektina. Það er ekki starfsmönnum bæjarskrifstofunnar um að kenna frekar en hinum almenna borgara en öll sitjum við uppi með að taka þátt í tiltektinni.

Næstum öll. Þeir eru nefninlega sumir sem gera hvað þeir geta til að spilla samtakamættinum og sá fræjum tortryggni með lýðskrumi og misvísandi staðhæfingum.

Til dæmis í umræðunni um laun kjörinna fulltrúa. Kristinn Jakobsson lagði til á bæjarráðsfundi að föst laun bæjarráðsmanna yrðu felld niður og að eingöngu yrði greitt fyrir fundarsetu. Hugmyndin hljómar kannski ágætlega á yfirborðinu en hún er ekkert annað en lýðskrum. Fyrir það fyrsta leggur Kristinn til niðurfellingu á einu laununum sem hann fær ekki, enda er hann áheyrnarfulltrúi í bæjarráði. Hann hefði getað lagt til að greiðslur fyrir fundarsetu yrðu lækkaðar eða felldar niður eða jafnvel laun bæjarfulltrúa. En hann gerði það ekki, enda hefði hann þá skert eigin kjör.

Þar fyrir utan er með eindæmum vitlaust að ætlast til þess að bæjarráðsmenn fái aðeins greitt fyrir fundarsetu því þeir inna af hendi gríðarmikla vinnu um þessar mundir við að bjarga bæjarfélaginu okkar frá þeirri kafsiglingu sem fyrri meirihluti stóð fyrir. Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að fólk geri slíkt launalaust. Og greiðsla fyrir fundarsetu fer til þess sem mætir hverju sinni, óháð því hvort það er aðalfulltrúi, varafulltrúi eða áheyrnarfulltrúi, en vinnuframlag þeirra tveggja síðastnefndu er í engu samræmi við aðalfulltrúa.

Og svo eru það sjálfstæðismenn og klappstýrurnar þeirra sem eru víða. Grímulaust ganga bæjarfulltrúar flokksins fram í gagnrýni sem er eins og í þeirra fyrri valdatíð, í engu samhengi við raunveruleikann sem blasir við hugsandi fólki. Og framkvæmdastjórar hjá bænum opinberuðu sig margir sem helbláa stuðningsmenn fyrrum valdahóps með greinaskrifum, áróðursfundum í boði bæjarsjóðs og allskyns fegrunaraðgerðum rétt fyrir kosningar. Þetta fólk, sem vann gegn núverandi ráðamönnum í liðnum kosningum, stjórnar nú á bæjarskrifstofunni þar sem allt logar í óánægju. Það má alveg velta því fyrir sér hverjir bera olíu á eldinn sem væri jafnvel ekki svo mikill ef aðgerðirnar fengju að ganga í gegn áður en brjálæðiskastið byrjar. Eða ef fólk reyndi að skoða þær í stærra samhengi.

Þeir sem hatast út í núverandi meirihluta halda því hátt á lofti að bæjarfulltrúar þurfi bara að taka á sig skerðingu um 5% á föstum greiðslum meðan fótunum er kippt undan öllum öðrum. Með þetta eins og annað þarf að skoða hlutina í samhengi. Bæjarfulltrúar fá 67 þúsund krónur í fastar greiðslur og 37 þúsund fyrir fundarsetu. Fundir eru tvisvar í mánuði þannig að ef fastafulltrúi mætir á báða fundi fær hann 137 þúsund krónur á mánuði. Þeir vinna ötullega í þágu bæjarfélagsins á allskonar stundum og mörgum stöðum en fá ekki fasta yfirvinnu til að hífa tekjurnar upp og ekki heldur ökutækjastyrk. Með 5% skerðingunni verða mánaðarlaunin 133.850 krónur. Er það í alvörunni eitthvað til að æsa sig yfir í samanburði við allt að hundruða kílómetra ónýtta ökutækjastyrki og tuga tíma óunna yfirvinnu sem verið er að sneiða af öðrum?

Ég segi það aftur að ég skil gremjuna í fólki. En staðan sem blasir við býður ekki upp á aðra kosti. Núverandi minnihluti hefur ekkert að bjóða nema „hvað ef“ hagfræði sem er nákvæmlega ástæðan fyrir því að bærinn er núna í sögulega skelfilegri stöðu sem við þurfum öll að greiða fyrir.

Ef við ætlum að taka brjálæðiskast eigum við að beina því að ástæðum þess að við erum nú í þeirri stöðu að það þrengir að hjá öllum. Ekki út í þá sem eru að reyna að laga þetta bæjarfélag.

Rithöndin kemur upp um hann

Ég datt niður á grein um daginn þar sem lýst er nýlegri rannsókn sem bendir til þess að stjórnendur með stóra undirskrift séu sjálfsdýrkendur, taki slæmar fjárhagslegar ákvarðanir og að fyrirtækjum sem lúti stjórn yfirmanna með stóra undirskrift gangi almennt verr en öðrum.

„[…]þegar ársskýrsla er með stórri undirskrift stjórnanda – mælt með kassa utan um endimörk undirskriftarinnar með tilliti til nafnlengdar – eyðir fyrirtækið almennt meira í fjárfestingarvörur, rannsóknir og greiningu og yfirtökur en jafningjar í bransanum, en skila þó verri söluhagnaði og söluaukningu á næstu þrem til sex árum.

Ennfremur fundum við samhengi við einkaleyfi. Því stærri sem undirskriftin er, því færri einkaleyfi sem bendir til skorts á nýsköpun. Þessar niðurstöður koma heim og saman við að stór undirskrift lýsir sjálfsdýrkun og sjálfselskandi stjórnendur haga sér á þann veg sem leiðir til slæmrar útkomu – til dæmis með því að yfirgnæfa samræður, hunsa gagnrýni og gera lítið úr starfsfólki.“

Dömur mínar og herrar, ég kynni undirskrift Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra: