Í Reykjanesbæ býr fjöldi barna við þann nöturlega veruleika að foreldrar þeirra eiga ekki peninga fyrir mat og nýlega kom umræða upp í Facebook grúbbu um börn sem vísað er frá afgreiðslu Skólamatar vegna skulda foreldra þeirra. Þar kom réttilega fram að slík tilvik heyra til undantekninga og að reynt sé að koma til móts við það fólk sem hefur ekki efni á mataráskrift en í umræðunni virðist enginn vera sammála um hvaðan sú aðstoð kemur.

Í þeirri viðleitni minni undanfarna mánuði að létta börnum efnalítilla foreldra á Suðurnesjum tilveruna með jólagjöfum og nú síðast páskaeggjum leitaði ég til Velferðarsjóðs Suðurnesja um aðstoð við dreifinguna. Ég valdi þau til aðstoðar vegna þess að þar er skilvirk og góð umsýsla sem tryggir að aðstoðinni er útdeilt til þeirra sem mest þurfa á henni að halda. Ég komst að því að auk þess að aðstoða fólk með ýmsar nauðsynjar greiðir Velferðarsjóður skólamáltíðir fyrir tugi barna og aðstoðar við æfingagjöld og ýmislegt fleira sem gerir okkar verst stöddu börnum kleift að eiga sem eðlilegasta barnæsku miðað við jafnaldra þeirra. Sjóðurinn er rekinn að mestu leyti fyrir peninga Keflavíkurkirkju en einnig styðja fyrirtæki og einstaklingar á svæðinu við bakið á þeim. Hér er ágætt að staldra við og rifja upp 31. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um jöfn tækifæri barna til slíkrar iðju:

Reykjanesbær ákvað nú í ár að kominn væri tími til að styðja við starf sjóðsins og til stendur að reiða fram fram eina milljón króna til reksturs sjóðsins, sem stendur ekki sérlega vel í ljósi þess mikla fátæktarvanda sem við glímum við. Mér finnst þessi stuðningur Reykjensbæjar sjálfsagður og löngu tímabær enda hefur það komið fram í umræðunni að þegar fólk leitar til bæjarins eftir aðstoð við matarkaup er vísað á Velferðarsjóðinn og því eðlilegt að bærinn taki þátt í kostnaðinum.

En þegar ég skoðaði umræðuna um þessi mál og tölur tengdar henni fór ég að rissa upp tölur og tengja þær saman og hér er sitthvað sem ég komst að:

Áskrift að hádegismat í grunnskólum Reykjanesbæjar kostar kr. 298,- fyrir hverja máltíð sem gerir um 6 þúsund krónur á mánuði.

Velferðarsjóður greiðir um 300 þúsund krónur á mánuði fyrir mataráskriftir þeirra sem hafa ekki efni á því. Þetta þýðir að einnar milljónar framlag Reykjanesbæjar dekkar um þrjá og hálfan mánuð. Mataráskriftirnar eru þó eins og áður sagði bara hluti af útgjöldum sjóðsins.

En yfir í annað.

Tvisvar sinnum á ári fer Árni Sigfússon með lykilstarfsfólk (þá sem hafa „-stjóri“ í starfsheitinu og nokkra til) á tveggja daga vinnufund á hótel úti á landi. Árið 2013 fór hópurinn annars vegar á Hótel Geysi og greiddi fyrir það kr. 385.000,- og hins vegar á Frost og funa og greiddu fyrir það kr. 579.000,-. Kostnaður við þessar tvær vinnuferðir er samanlagður 964 þúsund krónur.

Ef við ímyndum okkur að Árni og hans fólk hefði gert sér að góðu að vinna í fundarsölum nýja ráðhússins, hvað hefði þá mátt gera fyrir þessa peninga? Til dæmis hefðum við getað gefið 800 svöngum grunnskólabörnum ókeypis máltíð í þá fjóra daga sem þau funduðu á hótelunum. Ef við horfum samt eilítið praktískar á málið og reynum að nýta skynsamlega þessar þrjú þúsund tvö hundruð þrjátíu og fimm máltíðir sem hægt væri að kaupa fyrir fundarferðirnar, þá hefðu 18 fátæk börn getað fengið ókeypis skólamáltíðir í heilt ár.

Páskaeggin sem ég fékk Velferðarsjóði til dreifingar voru eitt hundrað talsins og þau gengu öll út. Það er staðreynd að tólf þúsund börn á Íslandi búa við fátækt, svo ég hygg það ekki glæfralegt mat að ætla að eitt hundrað börn í Reykjanesbæ og nágrenni búi við skort.

Með þessi hundrað börn í huga er forvitnilegt að sjá hvernig Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar forgangsraða þegar kemur að því að ráðstafa peningum. Turninn sem stendur á nýja Parísartorginu kostaði 4,5 milljónir skv. samantekt framkvæmdastjóra umhverfis- og skipulagssviðs og ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvað fengist fyrir þá upphæð. Hafa ber í huga að ég er ekki að tala um kostnað við hringtorgið sjálft, sem er samgöngubót, heldur skrautfjöðrina sem nauðsynlegt þótti að setja á það.

Fyrir þá peninga gætum við gefið 84 börnum skólamat í heilt ár. Við þyrftum ekki að hafa miklar áhyggjur af þessum 16 sem upp á vantar ef Árni og hans lykilfólk sættu sig við að funda á sínum vinnustað eins og öðrum starfsmönnum bæjarins er uppálagt að gera.

Það er samt ástæðulaust að taka þennan lúxus af mikilvæga fólkinu í fílabeinsturninum ráðhúsinu svo við skulum athuga hvað við gætum t.d. gert fyrir bæjarhliðin sem hlaðin voru síðasta sumar. Þau eru liður í framtíðarsýn Reykjanesbæjar sem virðist leggja hvað ríkasta áherslu á að bærinn okkar líti vel út á yfirborðinu.

„Hvaða fátæku börn?“

Ef við bætum við þeim 23 milljónum sem Reykjanesbær greiddi vegna bæjarhliðanna gætum við ekki aðeins gefið hverju einasta af þessum hundrað börnum fríar skólamáltíðir í heilt ár. Við gætum bætt um betur og veitt þeim öllum möguleikann á menningar- og tómstundaiðkun og greitt fyrir þau einn vetur í tónlistarnámi eða íþróttaæfingum. Það besta er að þau þurfa ekki að láta sér nægja eitt ár, því peningurinn dugar fyrir æfingum og máltíðum í rúm tvö ár.

Allt er þetta þó bara draumsýn, því þessi peningur er bundinn í steypu, grjóti og munaði fyrir þá hæst launuðu í boði okkar hinna.

Erum við í alvöru fjölskylduvænt bæjarfélag?


Lämna ett svar

Din e-postadress kommer inte publiceras. Obligatoriska fält är märkta *

error: Þetta efni er höfundarréttarvarið.