Eitthvað hefur verið skrifað um gervigreindarþjarka eins og ChatGPT að undanförnu. Umræðan hefur verið allskonar og hefur að stóru leyti snúist um svindlmöguleika nemenda og hættuna á að einhver störf verði útlæg.

Ég nenni ekki að tala um svoleiðis.

Gervigreindin er algjörlega frábært verkfæri á svo margan hátt og þessi færsla – og eflaust fleiri í kjölfarið – varpa kannski ljósi á það. Ég ákvað að skrifa þetta því enn eru svo margir sem hafa ekki prófað gervigreindarþjarka og fá jafnvel bara upplýsingar úr æsilegum fréttaflutningi. Þetta er ein svakalegasta tækniframför síðari tíma og á sama tíma ein sú aðgengilegasta. ChatGPT er ekki eini þjarkurinn, heldur er núna hægt að tala við Bard frá Google eða Bing frá Microsoft auk þess sem ógrynni af vefsíðum og öppum bjóða nú allskyns gervigreindarþjónustu. Þetta er bókstaflega örfáa smelli í burtu og ef þú hefur ekki þegar prófað þetta þá vona ég að þú gerir það eftir lesturinn.

Ég er búinn að leika mér að gervigreindinni í nokkra mánuði og hef ofið hana inn í ýmsa þætti daglegs lífs. Ég er með ChatGPT í símanum og tölvunni svo ég geti gripið í það þegar þarf.

Úti í búð

Konan mín sér yfirleitt um að versla í matinn. Henni finnst það skemmtilegra en mér, en aðalástæðan er líklega sú að ég er hálfan daginn í búðinni þegar mér er hleypt þangað. Ég veit ekkert hvar hlutirnir eru og þvælist fram og til baka um búðina í handahófskenndri leit og enda á að safna 10 þúsund skrefum þvert á alla skynsemi.
Um daginn var komið að búðarferð hjá mér og ég horfði sveittur á listann sem ég hafði skrifað og velti fyrir mér hvort ég yrði hreinlega eftir í búðinni við lokun. Þá greip ég í þjarkinn og bað hann að flokka listann minn eftir því hvar í búðinni ég gæti fundið allt.

Í atvinnuleit

Glöggir lesendur sjá líklega að ég er staddur í útlöndum. Ég bý í Svíþjóð og er um þessar mundir að leita mér að vinnu. Það væri vægast sagt lýjandi að skrifa hvert sænska bréfið á fætur öðru þar sem ég útskýri hvers vegna ég er rétti maðurinn í starfið. Í staðinn skrifa ég nokkrar línur til að láta ChatGPT vita hvers vegna vinnan vekur áhuga minn og svo lími ég inn ferilskrána mína og textann úr atvinnuauglýsingunni. ChatGPT skilar texta þar sem reynslu minni og færni er stillt upp gagnvart því sem vinnuveitandinn leitar eftir samkvæmt auglýsingunni.

Svo er ég auðvitað búinn að uppfæra hjá mér LinkedIn með textum úr þjarkinum auk þess að láta hann orða fyrir mig færslu sem ég vildi skrifa en hafði ekki tíma til, svo ég mataði hann á hugmyndunum og hann sá um rest.

Facebook-auglýsingar

Ég sel stundum hluti á Facebook marketplace og þá gríp ég í ChatGPT. Skrifa vörumerki og vörunúmer, upphæðina sem ég vil og hvernig afhendingin fer fram. ChatGPT beitir þá textanum á þann hátt sem hæfir Facebook-sölu, skellir inn nokkrum tjáknum og ekkert er eftir nema að bæta við mynd.

Og meira til!

ChatGPT hjálpaði mér að finna út úr því hvað var að bílnum þegar drapst á honum um daginn. Ég spurði hvað gæti verið að, þjarkurinn bað mig á móti að athuga nokkra hluti til að hjálpa við bilanagreininguna, og svo kom tillaga sem reyndist rétt.

Um daginn tók ég upp bók sem ég var hálfnaður með og hafði ekki opnað í marga mánuði. Ég las nokkrar blaðsíður , lýsti þeim fyrir þjarkinum og hann sagði mér hvað var búið að gerast í sögunni fram að þeim tímapunkti.

Einhver ráðningarsíða bað mig að ”pitcha” mér í 140 stafabilum eða minna. Þá límdi ég ferilskrána inn í þjarkinn og hann græjaði það.

Þjarkurinn hefur gefið mér endalaust af hugmyndum til að búa til kennsluefni, lagt til kokteilauppskriftir útfrá því sem ég á í skápnum og samið fyrir mig falska íslenska málshætti til að rugla í Svíunum.

Möguleikarnir eru endlausir! Og nú, þegar Microsoft hefur keypt ChatGPT og spyrt því saman við leitarvélina Bing, þá bara fjölgar þeim. Hér í Lundi er til dæmis bæjarhátíð um næstu helgi og ég sagði Bing hvaða áhugamál ég hefði og að ég ætlaði á téða hátíð. Bing fann upplýsingarar á netinu og skilaði af sér klæðskerasniðnum ábendingum.

Og við erum bara rétt að byrja.


Lämna ett svar

Din e-postadress kommer inte publiceras. Obligatoriska fält är märkta *

error: Þetta efni er höfundarréttarvarið.