Hér endurbirti ég grein sem ég skrifaði árið 2014 í tilefni af því þegar hatursáróður í sumarbúðum Ástjörn komst í umræðuna. Í dag rambaði ég af tilviljun á aðra grein, 9 árum nýrri, sem fjallar um hvernig sami óþverri viðgengst á Ástjörn svo ég ákvað að endurbirta þessa færslu sem fjallar meðal annars um óþverran sem ég varð sjálfur vitni að þar fyrir um fjórum áratugum:

Ástjörn er heit í umræðum dagsins þar sem móðir sagði DV frá hatursáróðri sem barn hennar sat undir í sumarbúðunum þar. Í kommentakerfinu kveður við sama tón og oft þegar svona mál ber á góma. „Ég var þarna og átti góðar stundir. Ömurlegt að verið sé að sverta staðinn“ er nokkurnveginn tónninn í því sem margir segja. Þetta gerðist líka í umræðunni um eineltismálið í Grindavík og hefur gerst oft áður. 

Ég þoli þetta ekki.

Grunnskólaganga mín var alveg hreint ágæt. Ég átti þar góða vini, gekk vel í námi og komst óskaddaður frá öllum þeim uppákomum sem árunum fylgdu. Ég er hins vegar ekki svo einfaldur að halda að svo hafi verið um alla. Á þeim tíma var ég það reyndar. Ég var alveg merkilega ómeðvitaður um „stóru málin“ eins og það hverjir voru farnir að prufa eiturlyf, sofa hjá og efna til slagsmála. Það var handan míns sjóndeildarhrings. Ég hvái enn eins og sauður þegar jafnaldrar mínir rifja upp einhverja skandala unglingsáranna sem voru kannski flestum ljósir öðrum en mér. Og bara nýlega komst ég að því að nemandi sem var mér samtíða í skóla varð fyrir langvarandi og grófu einelti á þeim tíma. Hann var ekki sá eini sem ég uppgötvaði seint að hafði átt hræðilega skólagöngu en mér dettur ekki í hug að efast um það vegna þess hve vel ég naut mín í öðru meðan á því stóð. 

Ég get skilið að óþroskaður heili barna og unglinga eigi erfitt með að ná utan um hve ólík upplifun fólks getur verið en allir sem hafa móttekið þroska fullorðinsáranna skilja litróf einstaklinga og þeirra aðstæðna sem þeir upplifa. Við bregðumst ekki öll eins við. Við horfum ekki alltaf öll í sömu átt. 

Ég var í sumarbúðunum á Ástjörn sem barn. Ég man vel eftir góðu stundum sem ég átti með vini mínum Sigursteini sem ég kynntist þar. Ég man eftir dauða fuglinum sem við fundum og veittum viðhafnarútför úti í skógi. Ég man eftir öllum lögunum sem ég lærði og söng af innlifun og skrýtna karlinum með síða hárið sem kom í heimsókn í matsalinn og sagði okkur frá því að hann hefði ekki notað sjampó í 20 ár. Ég man eftir því þegar starfsmaður öskraði á ungan dreng á 10 sentimetra færi vegna þess að hann hafði ekki lyst á að klára grautinn sinn og stóð svo yfir honum meðan hann píndi í sig hverja skeið á fætur annarri. Ég man líka eftir bylmingshögginu sem ég heyrði rétt eftir að drengur var dreginn fram í forstofu því hann svaraði með skætingi þegar hann var krafinn um ástæður þess að hann mætti seint í söngstund. Og ég gleymi ekki svipnum á honum þegar hann gekk grátandi með hönd á vanga aftur inn í salinn og settist hljóður niður meðan við tókum upp þráðinn að syngja um Jesú.

Við fetum ekki öll sömu stíga í lífinu og við verðum stundum að taka augun af eigin fótum. Mín upplifun af Ástjörn var neikvæð. Upplifun drengsins sem um ræðir í fréttinni var neikvæð. Upplifun annarra, sama hversu jákvæð hún er, er ekki réttari en okkar. Bara öðruvísi.


Lämna ett svar

Din e-postadress kommer inte publiceras. Obligatoriska fält är märkta *