Mér varð litið á dagatalið í dag og áttaði mig þá á því að það eru um það bil tvö ár frá því að ég var á mögulega lægsta punkti lífs míns, mitt í grófri kulnun. Um þetta leyti sat ég í fyrirlestrarsal á fínu hóteli með tugum kollega og hlustaði á fyrirlestur um skólaþróun. Ég gat ekki einbeitt mér að því sem fyrirlesarinn sagði, því um höfuð mitt þeyttust hugsanir um allt sem biði mín að gera þegar ég kæmi til baka á skrifstofuna. Allt sem ég þyrfti að græja sem næsti yfirmaður 35 kennara, en líka sem tölvuumsjónarmaður og tækniráðgjafi í stofnun sem innihélt rúmlega eitt hundrað starfsmenn og þjónustaði 4000 nemendur í 70 skólum. Síðastnefndi hlutinn var nokkuð sem yfirmaður minn áleit að maður gerði bara í hjáverkum.
Ég var búinn að gefast upp á því að andmæla vinnuálaginu. Ég gerði síðustu heiðarlegu tilraunina þegar ég var, ári áður á kafi í covid, að færa alla okkar kennslu yfir á stafrænt form og var einn í því að hjálpa mistækniheftum kennurunum að læra á Classroom, fjarfundakerfi, skjaladeilingar og fleira frá morgni til kvölds. Allir voru heima hjá sér (nema við yfirmennirnir) og ég var linnulaust á fjarfundum með kennurum að leiðbeina þeim eða fjarstýra tölvunum þeirra, búa til leiðbeiningar, halda námskeið, leysa tæknileg vandamál sem komu upp milli skólakerfanna, á heimilum nemendanna… og pósthólfið mitt fylltist hraðar en ég gat fengist við, þó ég sæti fram yfir miðnætti á hverjum einasta degi að svara póstum.
„Mér finnst eins og ég sé að drukkna,“ sagði ég og gróf andlitið í höndum mér yfir kaffibolla í eitt af fáum skiptum sem ég leyfði mér að drekka kaffi með hinum yfirmönnunum. Yfirmaður minn horfði spurul á mig svo ég hélt áfram: „Allir eru endalaust að biðja mig um að leysa vandamálin sín og ég bara sé ekki fyrir endann á því.“
„Hvað ertu eiginlega að tala um? Það er enginn hér.“
Þarna var ég orðinn svo brotinn að ég gat ekki orðið jafn reiður og ég hefði átt að vera yfir svo hálfvitalegu svari.
Eftir margar gráthrinur hjá sálfræðingi hef ég áttað mig á að eitthvað af því sem ég gekk í gegnum var sjálfskaparvíti því ég er haldinn krónískri helvítis þörf að passa að allir aðrir hafi það gott meðan ég er staurblindur á kostnaðinn sem það tekur út á mér. Ég hefði átt að vera löngu búinn að setja niður fótinn yfir gjörsamlega óásættanlegum vinnuaðstæðum en mér tókst alltaf að sannfæra mig um að ég bara dygði ekki til. Ég er enn að kljást við að finnast það.
Allavega, ég skildi ekki orðin sem fyrirlesarinn sagði og áttaði mig ekki á hvað glærurnar sýndu. Fyrirlesturinn fjallaði um þau margþættu þróunarverkefni sem skólastjórnendur vinna að og mér fannst þetta eins og ljótur brandari – áminning um það sem var ætlast til að ég sinnti sem skólastjórnandi án þess að ég hefði til þess mínútu aflögu. Ég vissi sem var að ekki kjaftur af þeim sem þarna voru þurfti að sinna tölvuumsjón samhliða starfinu því það var á könnu annarra en stjórnenda. Allt snerist um að vera í stöðugri þróun og góður árangur í því var hið raunverulega virði stjórnandans á öllum stöðufundum sem ég hafði afplánað. Ég upplifði mig skyndilega svo einmana og hjálparlausan. Mér fannst eins og höfuðið væri að losna af límingunum samtímis sem sessunautur minn hallaði sér að mér og sagði: „Hver eru helstu þróunarverkefnin sem þú ert að vinna að?“
„Hvaða andskotans þróunarverkefni!? Ég lagaði sama stíflaða prentarann átta sinnum í síðustu viku. Viltu vita meira um það? Ég hjálpaði fólki að finna takkann til að kveikja á vefmyndavélinni sinni og sýndi kollega mínum í þriðja skipti hvernig maður uppfærir fréttir á starfsmannavefnum. Kollega sem er í sama stöðugildi og ég, án tölvuumsjónar, og situr iðulega með kaffibolla og góða bók á skrifstofunni sinni til að vera með puttann á púlsinum meðan ég staula um skrifstofuna með snúrur vafðar um alla útlimi að leysa fjögur tölvuvandamál samtímis meðan ég bið til guðanna að ég geti mögulega borðað hádegismatinn minn þann daginn án þess að einhver oti tölvu í andlitið á mér vegna þess að hann er búinn að setja tölvupósthólfið sitt í öfuga tímaröð og finnur ekki neitt. Ég hef ekki tíma fyrir fokking þróunarverkefni vegna þess að ég er upptekin alla daga, allan djöfulsins daginn, við að leysa vandamál annarra!!“
…langaði mig að segja, en í staðinn sagðist ég þurfa að fara á klósettið. Ég fór upp á hótelherbergi, dró sæng yfir höfuðið á mér og grét þar til ég sofnaði. Ég tók lestina heim um morguninn eftir að hafa grátið aðeins meira niðri við sjó.
Á mánudeginum gerði ég heiðarlega tilraun til að fara í vinnuna. Þetta var jú allt bara aumingjaskapur í mér og ég þurfti bara að forgangsraða, vinna betur, vera betri… Ég komst rúmlega hálfa leið og fór svo bara að gráta úti á götu.
Ég var óvinnufær heima í nokkra mánuði, þunglyndur, kvíðinn og agnarsmár.
Þegar ég lít til baka finnst mér farsakennt hvað ég lét þetta ganga yfir mig lengi. Hvernig mér tókst að normalísera það að þurfa stundum að loka að mér til að fara ekki að gráta undan álagi á skrifstofunni. Ég yfirgaf vinnustaðinn á endanum, eftir nokkurra mánaða veikindaleyfi og mitt í endurhæfingunni, þegar mér var ljóst að það átti bara að hækka undir mér hitann smám saman þar til ég væri kominn í sömu sturlunina og hafði brotið mig í spað.
Það var hrikalegt að bæta atvinnuleysi ofan á andlega vanheilsu en ég leit ekki svo á að ég ætti annarra kosta völ.
Eftir 6 mánaða viðkomu í öðru skólastjórnunarstarfi hef ég áttað mig á að ég vil ekki vinna við svoleiðis. Eða… ég get það allavega ekki lengur því ég er nú svo viðkvæmur fyrir kröfum að það setur mig alveg út af laginu. Svo finnst mér líka hundleiðinlegt að sitja inni á skrifstofu og ekki í miðjum barnahópi.
Nú er ég aftur á gólfinu og uni mér vel. Ég treysti mér ekki til að fara að kenna því ég er hreinlega ekki lengur bógur í það. En ég eyði dögunum í að stússa í tölvumálum fyrir eðlilegan fjölda af fólki og með mátulegan tíma til þess milli þess sem ég vinn með krökkum á frístundavistun.
Kulnun er andstygglileg. Hún læðist upp að þér, dulbýr sig til dæmis sem „bara stress“ eða „smá lægð“ og áður en þú veist af ertu í sjálfheldu. Það er erfitt að bera kennsl á hana því hún hefur svo margar birtingarmyndir. Fyrir sumum er hún andleg uppgjöf, fyrir öðrum síþreyta eða jafnvel kvíðaköst og þunglyndi. Hvernig sem hún birtist þá er hún raunveruleg og verðskuldar athygli.
Fyrir tveim árum síðan áttaði ég mig ekki á því hvað var að koma fyrir mig fyrr en það var of seint. Ég reyndi að þrauka, sannfærði mig um að ég þyrfti bara að vera duglegri, betri starfskraftur, betri manneskja… Núna reyni ég að tína upp brotin af sjálfum mér og vinn í að setja sjálfan mig í fyrsta sæti, jafnvel þegar það gengur gegn sannfæringu minni.
Kulnun er ekki merki um veikleika. Hún er áminning um að við erum öll bara mennsk og getum ekki gefið endalaust án þess að huga að sjálfum okkur í leiðinni. Tölum um kulnun. Normalíserum það að tala um andleg veikindi, vegna þess að því betur sem við skiljum þau því betur getum við hlúð að okkur sjálfum og okkar nánustu.