Alvarlegar ásakanir – til hvers?

Árið 2010 lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram eftirfarandi tillögu sem meirihlutinn felldi:

Samfylkingin í Reykjanesbæ leggur til að bæjarstjórn Reykjanesbæjar skipi nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjanesbæjar.

Nefndin fái fullan aðgang að skjalasafni Reykjanesbæjar og öllum gögnum er varða stjórnsýslu bæjarins. Þá leiti hún upplýsinga hjá aðilum utan stjórnkerfisins eftir þörfum.

Nefndin leggi fram starfsáætlun fyrir 01.nóvember 2010, þar sem fram komi m.a. umfang og áherslur í starfinu, auk áætlaðs kostnaðar.

Lokaskýrsla nefndarinnar liggi svo fyrir eigi síðar en 01.apríl 2011. Bæjarráð ákveður þóknun nefndarinnar.

Aðalverkefni nefndarinnar verði:
– Að kanna stjórnsýslu bæjarins og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.
– Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.
– Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu bæjarins.
– Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við bæinn og einstaka embættismenn eða bæjarfulltrúa.
– Að kanna hvort einstakir embættismenn, bæjarfulltrúar eða frambjóðendur til bæjarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við bæinn.
– Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu bæjarins eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.

Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson

Nú er nýr meirihluti með aðkomu Samfylkingar búinn að sitja í 1 ár og mér þætti alveg tilvalið að þetta yrði tekið upp aftur. Hafi Friðjón og hans fólk talið tilefni til þess á sínum tíma ætti það enn að vera gilt og full ástæða til að fylgja því eftir.

Bæjarstjórnin hefur reynt að haga málum þannig að ota ekki fingrum og Kjartan Már sló upphafstóninn í því þegar hann núllaði út allar ásakanir kosningabaráttunnar um fjármálaóreiðu með því að segja til lítils að horfa í baksýnisspegilinn í einu af sínum fyrstu viðtölum í embætti. Svo var blásið til sóknar sem virðist einhversstaðar hafa beygt ofan í skurð vegna þess að bæjarstjóri hefur ekki uppfært upplýsingapistlana þar um á vefsíðu bæjarins í hálft ár ef frá er talinn einn pistill í júlí um skattsvikara bæjarins.

Ég birti þessa mynd á síðunni minni fyrir síðustu kosningar vegna þess að allir gerðu grín að Sjálfstæðismönnum fyrir að vilja ekki tala um fortíðina.
Það reyndist smitandi.

Fólk taldi sig vera að kjósa baráttufólk fyrir opinni stjórnsýslu og heiðarlegum vinnubrögðum en þegar fólk færist um stól í fundarherberginu á Tjarnargötu 12 er eins og hugsjónirnar fylgi ekki með.

Fólkið sem reytti hár sitt eitt sinn yfir bókhaldsprettum, klúðri og valdníðslu embættismanna endurréði þá svo og talar um að ekki megi dvelja við fortíðina. Það boðar ekki gott.

Það er sjálfsagt að dvelja ekki svo mikið við baksýnisspegilinn að maður komist ekki áfram en núverandi meirihluti ber ábyrgð gagnvart bæjarbúum öllum að opna stjórnsýsluna upp á gátt og sýna það sem við ekki máttum sjá á sínum tíma svo við getum vitað hvernig bænum okkar var stjórnað og hvers vegna bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar komu fram með svona alvarlegar ásakanir árið 2010. Það er eitt og nógu slæmt að bæjarfulltrúum minnihlutans hafi ekki tekist að varpa ljósi á hvernig bæjarfélaginu okkar var stjórnað á sínum tíma en djöfullegt er það þegar þetta sama fólk hættir við um leið og það fær til þess umboð.

Var þetta bara leikrit til að ná völdum?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *