Eftirfarandi setti ég upphaflega sem komment á Facebook-þráð en finnst það eiginlega verðskulda sína eigin bloggfærslu, enda merkileg saga um stjórnsýslu og sérkennilega tímaröð atburða: „Eins og einhverjir muna bárust fréttir af byggingu nýs gagnavers á Patterson svæðinu í maí á síðasta ári. Í byrjun júní hafði ég samband við bæjarskrifstofuna og spurði hvort ég mætti sækja eintak af byggingarleyfinu fyrir gagnaverið. Hjá USK (umhverfis- og skipulagssviði) var mér ýmist sagt að ég mætti ekki fá það (sem stangast á við upplýsingalög) eða þá að sá sem ég talaði við (ritari USK) hefði ekki aðgang að skjölunum. Allir sem ég talaði við stömuðu einhverja afsökun fyrir því að ég gæti ekki fengið afrit af byggingarleyfinu. Seinna sama dag fékk ég símtal frá manni sem gegnir ábyrgðarstöðu fyrir einn af flokkum nýja meirihlutans og hann bað mig að gramsa ekki í þessu því það gæti valdið skaða sem væri óþarfur. 6. júní sendi ég svo formlega fyrirspurn og þrjár vikur liðu án þess að Umhverfis- og skipulagssvið svaraði erindi mínu en þá fékk ég loks bréf um að ekki hefði verið gengið frá gatnagerðargjaldi og því lægi byggingarleyfi ekki fyrir. Ég spurði hvort það væri ekki verið að byggja þarna uppfrá og hvort byggingarleyfi væri ekki forsenda þess. Ekkert svar barst. Ég ítrekaði viku seinna og fékk ekkert svar. Þá var kominn júlí. 13. nóvember sendi ég aftur ítrekun, rúmum fjórum mánuðum síðar. Ekkert mætti mér nema þögnin.
8. desember, hálfu ári eftir fyrstu beiðni, sendi ég enn eitt bréfið og minnti á skyldu USK skv. upplýsingalögum. Þann dag barst mér loks afrit af byggingarleyfi sem gefið var út 14. júlí, 2 mánuðum eftir að framkvæmdir hófust.“ Þar sem formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar var í umræðunni bað ég hann að segja skoðun sína á vinnubrögðunum og bíð þolinmóður svars. (Þessi tengill virkar ekki lengur því ég var gerður útlægur úr facebook-umræðuhópi íbúa Reykjanesbæjar vegna óþægilegra spurninga).
Lämna ett svar