Sítrónukjaftæði

Á vefsíðunni Spegill.is er grein eftir Heiðu Þórðar sem fjallar um áhrifamátt sítrónusafa og matarsóda gegn krabbameini. Í greininni, sem hefur fengið hátt í 10 þúsund deilingar, er sagt að fjölmargar rannsóknir hafi sýnt fram á „eiginleika sítrónunnar gegn krabbameini“ og að blanda af sítrónusafa og matarsóda sé öflugri en lyfjameðverð.

Vá! Það er aldeilis…

Ég velti því auðvitað fyrir mér hvers vegna öll sjúkrahús bjóði þá sjúklingum ekki frekar upp á að bíta í sítrónur frekar en að gangast undir þungbærar lyfjameðferðir, sem kosta auk þess talsvert meira en poki af sítrónum úr Bónus. Í leit að svörum opnaði ég tenglana sem vísað var í sem heimildir neðst í greininni.

Einn tengillinn opnaði síðuna Godlike Productions sem er spjallborð fyrir fólk sem skiptist á sögum af fljúgandi furðuhlutum, draugum og ægilegum samsærum hinna ráðandi afla. Þar á spjallþræði um hvernig heilun og fínstilling orkustöðvanna getur læknað krabbamein kom nafnlaus notandi með óstaðfesta sögu um hvernig pabbi hans læknaði sjálfan sig af krabbameini fyrir 50 árum með því að éta sítrónur.
Hmm, ókei. Allir vita að reynslusögur eru ekki marktæk vísindi, hvað þá á spjallborði þar sem allir virðast setja upp álhatta áður en þeir byrja að pikka. Greinarhöfundur hlýtur að vera að grínast eitthvað.

Best að skoða hinar heimildir greinarhöfundar. Næsti áfangastaður er vefsíðan Regenerative Nutrition og á henni er grein eftir Marc Sircus sem titlar sig OMD, en Google segir mér að það þýði að hann sé doktor í nálastungum og austurlenskum fræðum. Greinin byggir á litlu öðru en eigin vangaveltum og tilvitnunum í Dr. Simoncini, ítalskan lækni sem var fyrir 10 árum sviptur réttindum og sakfelldur fyrir svik og afglöp sem leiddu til dauðsfalls. Sá læknir hefur verið einn helsti talsmaður þess að krabbamein sé í raun sveppasýking sem megi lækna með sítrónum, matarsóda, sírópi og hvaðeina.

Staðreyndin er sú að ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að krabbamein sé sveppasýking eins og hann og fylgjendur matarsódaátsins halda fram og ennfremur eru engar rannsóknir til sem sýna fram á að matarsódi hafi nokkuð að segja í baráttunni við krabbamein. Vitleysan í þessum náunga og þeim sem éta hana upp eftir honum hefur orðið til þess að t.d. American Cancer Society þurfa að halda úti grein á vefsvæði sínu til að bera þvæluna til baka.

En rúsínan í pylsuendanum er þriðji og síðasti tengillinn sem Heiða Þórðar vísar á. Hann fer inn á vefsíðuna Cancer Research UK, og þar sem tengillinn vísaði á forsíðuna þurfti ég að leita á síðunni að greinum sem nefna sítrónur og matarsóda og þá kom upp þessi heimild sem bendir sterklega til þess að þó Heiða sé skrifandi sé hún mögulega ekki læs:

„Don’t believe the hype – 10 persistent cancer myths debunked“ þar sem segir meðal annars að „Internetið er drekkhlaðið myndböndum og persónulegum reynslusögum um náttúrulegar kraftaverkalækningar við krabbameinum. En stórkostlegar fullyrðingar krefjast afgerandi sannana og YouTube myndbönd og Facebook færslur eru ekki vísindaleg gögn til jafns við ritrýndar, vel gerðar rannsóknir.“

Já, þú last rétt. Máli sínu til stuðnings vísar Heiða Þórðar á vefsíðu sem segir að fólk eigi ekki að trúa bullgreinum eins og þeirri sem hún var að skrifa.
Eigum við ekki bara að taka þeim ráðum og hætta að dreifa þessu kjaftæði?


Lämna ett svar

Din e-postadress kommer inte publiceras. Obligatoriska fält är märkta *